Samfélag á Rás 2
Síðdegisútvarpið
Þau Andri Freyr Viðarsson, Guðmundur Pálsson og Hrafnhildur Halldórsdóttir halda landanum vel upplýstum um menn og málefni á leið úr vinnu á daginn. Þau fylgjast vel með fréttum og dægurmálum og spila nóg af góðri tónlist.
1. mars
Í dag eru 6 dagar liðnir frá því jarðskjálftahrina sem skekið hefur Reykjanesskaga hófst og hefur staðið yfir af miklum krafti síðan. Í viðtali við mbl.is nefnir jarðeðlisfræðingurinn Páll Einarsson að svona hviður standi jafnvel yfir í nokkur ár. Hverju er spáð með framhaldið, er þetta hristingur sem við ættum að venjast? Við sláum á þráðinn til Páls.
Vísindamannaráð funda með almannavörnum síðdegis í dag og að sögn Einars Hjörleifssonar náttúruvársérfræðings verður mat lagt á nýjustu gögn áður en ákveðið verður um framhaldið.
Við ræðum við Einar Örn Jónsson íþróttafréttamann um nýjustu fréttir frá Barcelona en lögregluaðgerðir standa yfir hjá spænska stórliðinu Barcelona og spænskir miðlar segja að búið sé að handtaka framkvæmdastjóra félagsins, Oscar Grau. Húsleit stendur nú yfir í höfuðstöðum Barcelona og rannsóknin snýr meðal annars að ásökunum um spillingu og peningaþvott en talið er að handtökurnar snúist einnium um hið svokallaða Barcagate mál. Fáum að heyra meira um það á eftir.
Við forvitnumst líka um tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður - sem er á dagskrá þrátt fyrir allt, í aðeins smækkaðri mynd. Tinna Ólafsdóttir upplýsingafulltrúi Ísafjarðarbæjar segir okkur allt um það.
Lára G. Sigurðardóttir, læknir og doktor í lýðheilsuvísindum ræðir við okkur um nikótínpúða og mikla aukningu á notkun þeirra hjá börnum og unglingum.
Á dagskrá: 01.03.2021 16.05
26.febrúar
Flutt 26.02.2021
Við bregðum okkur vestur á firði í þættinum í dag og heimsækjum Holt í Önundarfirði sem hefur sinnt hlutverki sóttvarnahúss fyrir Vestfirði undanfarna mánuði og tölum þar við Hólmfríði Bóasdóttur.
Á mánudaginn hófst árvekni- og fjáröflunarátak Einstakra barna undir slagorðinu ?Fyrir utan rammann.? Átakinu er ætlað að auka samfélagslegan skilning á stöðu barna með sjaldgæfa sjúkdóma og er kastaranum beint að foreldrum og fjölskyldum þessara barna. Hátt í 500 íslensk börn/ungmenni glíma við ofur sjaldgæfa sjúkdóma og félagasamtökin Einstök Börn fá engan opinberan stuðning til þess að sinna þessu verkefni. Guðrún Helga Harðardóttir, framkvæmdastjóri Einstakra barna kemur til okkar í þáttinn.
Háskóladagurinn verður haldinn á morgun og þar gefst fólki kostur á að kynna sér starfsemi skólanna. Síðdegisútvarpið skellti sér í Háskólann í Reykjavík til að hitta Eirík Siguðrsson sem ætlaði að segja frá deginum en dagskrágerðarmaður Síðdegisútvarpsins var gabbaður í mælingu á lífeðlislegum þáttum af nemunum Hörpu Brynjarsdóttur og Ingibjörgu Þóru Þórarinsdóttur sem eru nemar í íþróttafræði við HR. Við fræðumst einning um námsval og leiðir í Danmörku en þeir skólar eru einnig að kynna sig á háskóladeginum og hingað kemur Sigurður Blöndal lektor við Háskólann í Esbjerg.
Ríkisstjórnin samþykkti að veita styrki upp á 14 milljónir í margvísleg mál á fundi sínum í morgun. Meðal styrkþega er Eurovision-safnið á Húsavík sem fékk styrk uppá tvær milljónir. Könnunarsögusafnið stendur fyrir safninu í samstarfi við Húsavíkurstofu, RÚV, Samband evrópskra sjónvarpsstöðva og Netflix. Hugmyndin kviknaði eftir velgengni Eurovision-myndar Will Ferrell þar sem Ísland var í stóru hlutverki. Búningar úr myndinni eiga að prýða safnið, hinn frægi kjóll Jóhönnu Guðrúnar og margt fleira. í símanum er Örlygur Hnefill Örlygsson
25. febrúar
Flutt 25.02.2021
Okkur skilst að það sé nóg að gera á heilsugæslustöðvum við að útbúa sýnatökuvottorð fyrir fólk sem ætlar að skella sér til útlanda. Við heyrum í Sigríði Dóru Magnúsdóttur framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Við heimsækjum Siglufjörð í þættinum í dag og kíkjum þar á Súkkulaðikaffihús Fríðu. Þar ræddi Gígja Hólmgeirsdóttir við stofnanda kaffihússins, hana Fríðu Gylfadóttur, og fékk meðal annars að heyra af áhugaverðu verkefni þar sem allskonar fætur leika aðalhlutverkið.
Nú hafa væntanlega margir brugðist við eftir jarðskjálftana og hugað að lausum munum heima hjá sér enda er eindregið mælst til þess. Sem betur fer urðu engin alvarleg slys á fólki og ekki borist fréttir af miklu tjóni. En hvað með hús á Íslandi? Hversu örugg eru þau? Silvá Kjærnested sérfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ætlar að fara aðeins yfir þau mál með okkur.
Tónlistar- og menningarhúsið Harpa fagnar 10 ára afmæli á þessu ári. Af því tilefni leitar Harpa að 10 ára gömlum krökkum til að semja afmælislag fyrir Hörpu. Ingibjörg Fríða Helgadóttir annar verkefnastjóranna sem eru að plana þetta verður á línunni.
Ævintýramaðurinn Brandur Bjarnason Karlsson ætlar að kíkja til okkar. Hann fer sinna ferða í hjólastól og ætlar að skella sér í hringferð um landið í næsta mánuði til að vekja athygli á aðgengismálum. Síðast þegar við heyrðum í Brandi var hann staddur í Nepal í miðjum heimsfaraldri.
Skjálftarnir gær sitja eflaust ennþá í fólki og margir hafa sagt vinnufélögum sínum hvar þau voru stödd þegar skjálfarnir riðu yfir. Fáir voru þá í sporum Páls Ásgeirs Ásgeirsonar og Rósu Sigrúnar Jónsdóttur sem voru ofan í helli við Helgafell við Hafnafjörð. Við heyrum í Páli og fáum hans reynslusögu.
24.febrúar
Flutt 24.02.2021
Fjölmargir jarðskjálftar hafa orðið á Reykjanesi í dag. Þar af 13 af stærðinni 4 eða stærri og 58 skjálftar stærri en 3. Sá stærsti mældist 5,7og reið yfir kl. 10:05, hann átti upptök sín skammt suðsuðvestur af Keili. Skjálftarnir fundust víða og mörgum brá illa við þegar hús léku á reiðiskjálfi. Við ætlum að reyna að komast að því hvað er á seyði og tala við Pál Einarsson jarðeðlisfræðing um þennan mikla óróa.
Almannavarnarnir lýstu yfir hættustigi vegna skjálftanna á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir okkur hvað það felur í sér og hvað almenningur þarf að hafa í huga þegar ástandið er svona.
Nú hafa meira en 200 milljónir manna fengið bóluefni gegn covid 19 í heiminum og meira en 40 milljónir verið bólusett að fullu. Langflestir í Bandaríkjunum, þá Kína og svo Bretlandi. Við ætlum að heyra í Ingileif Jónsdóttur prófessor í ónæmisfræði um hvernig þetta hefur gengið og hvort áhrifanna sé þegar farið gæta. Við spyrjum hana líka aðeins út í covax samstarfið sem felur í sér að tryggja fátækum ríkjum aðgang að bóluefni óháð efnahag. Ghana varð í dag fyrsta ríkið til að fá bóluefni gegnum það samstarf.
í dag eru liðin 150 ár frá fæðingu Sigríðar í Brattholti. Sigríður Tómasdóttir var brautryðjandi á sviði náttúruverndar, þekktust fyrir framtak sitt til verndunar Gullfossi en hún barðst af einurð gegn áformum um virkjun fossins. Eyrún Ingadóttir sagnfræðingur hefur um árabil rannsakað ævi og baráttu Sigríðar og sendi frá sér bók á síðasta ári sem heitir Konan sem elskaði fossinn. Eyrún kemur til okkar á eftir
En fyrst meira af jarðskjálftunum á Reykjanesi í dag. Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í Reykjanesbæ verður á línunni.
23.febrúar
Flutt 23.02.2021
Sveitarstjórnar í sveitarfélögum með færri en 1000 íbúa leita nú allra leiða til að komast hjá því að fara í gegnum þvingaðar sameiningar, en til stendur að fækka sveitarfélögum á landinu með þeim hætti. Við hringjum vestur til Bolungarvíkur og heyrum í Jóni Páli Hreinssyni, bæjarstjóra, sem fer fyrir hópi minni sveitarfélaga, en þau vilja frekar semja um áframhaldið.
Rýmkun á samkomutakmörkunum taka gildi á morgun og munar um minna segja margir. Þetta snertir leikhús og aðra menningarstarfsemi, skóla, veitingahús, íþróttaviðburði og ýmislegt fleira. Við heyrum í Þórólfi Guðnasyni sóttvarnarlækni hér rétt á eftir.
Lakur lestrarárangur drengja hefur mikið verið í umræðunni undanfarið. Í Barnaskólanum í Hafnarfirði, sem fylgir Hjallastefnunni, benda gögn til þess að strákar við skólann standi ekki hallari fætur en stelpurnar þegar kemur að lestri. Hildur Sæbjörg Jónsdóttir, skólastjóri Barnaskólans, kíkir til okkar og ræðir þennan árangur.
Í dag er alþjóðadagur Rótarý, við forvitnumst um þessa mannúðtarhreyfingu í tilefni dagsins og ræðum við Soffíu Gísladóttur umdæmisstjóra.
Íslendingar eiga tæplega 4000 skráðar skammbyssur en Guðmundur Kr Gíslason, framkvæmdastjóri Skotfélags Reykjavíkur telur að skerpa þurfi á regluverki í kringum byssurnar. Hann kemur til okkar um hálf sex og ræðir meðal annars aukinn áhuga Íslendinga á því að eiga skammbyssu.
SDU 22.febrúar
Flutt 22.02.2021
Yfirvöld í nokkrum löndum heims ætla að slaka á aðgerðum sem gripið hefur verið til varnar gegn COVID-19. Í Danmörku hafa verið í gangi mjög strangar sóttvarnarreglur og því er beðið með nokkurri spennu hvað yfirvöld í landinu hyggjast gera í afléttingum á næstunni. Vigdís Finnsdóttir er verslunarrekandi og móðir sem býr í Kaupmannahöfn, við hringjum í hana á eftir og fáum að heyra af stöðunni þar í landi.
Það hefur lítið farið fyrir Grími Grímssyni lögreglumanni upp á síðkastið, en undanfarin þrjú ár hefur hann starfað sem tengslafulltrúi lögreglunnar hjá Europol. Nú stendur til að Grímur snúi aftur sem yfirmaður miðlægrar deildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Við ætlum að heyra í Grími, en hann er staddur við störf sín í Hollandi, og spjalla við hann um helstu viðfangsefni löggæslunnar í Evrópu og hvaða reynslu hann snýr aftur með í farteskinu.
Erlendum ríkisborgurum á Íslandi fjölgaði úr 2,6% í 12,4% frá árunum 2000 til 2019. Samkvæmt upplýsingum frá verkalýðsfélögum er erlent verkafólk verst launaða fólkið á íslenskum vinnumarkaði. Einnig er mun algengara er að brotið sé á erlendu fólki en íslensku fólki á íslenskum vinnumarkaði. Við rýnum nánar í aðstæður verkafólks, skoðum niðurstöður úr rannsókn sem gerð var um aðstæður pólsks verkafólks á Íslandi, heyrum af vinnumansali og stöðu verkafólks í ferðaþjónustu hjá þeim Önnu Gunnhildi Ólafsdóttur sviðsstjóra Félags- og þróunarsviðs Eflingar og Öddu Guðrún Gylfadóttir félagsfræðingi sem skrifaði nýlega BA ritgerð um aðstæður pólsks verka fólks á í Íslandi.
Fyrir stuttu kom fram á Alþingi frumvarp sem leggur til að blóðmerarhald verði bannað á Íslandi, en hér á landi er það vaxandi iðnaður að taka blóð úr fylfullum hryssum og nýta til þróunar á lyfjum í landbúnaði. Við heyrðum í Sveini Steinarssyni, formanni félags hrossabænda, um viðbrögð þeirra við frumvarpinu.
En við byrjum á keppni á hundasleðum og þeirri lengstu sem haldin hefur verið á Íslandi. Kepnnin fór fram á Húsavík á föstudag og laugardag, hlaupaleiðin var 150 km í heild og farin í þremur leggjum með hvíld inn á milli. Sigurvegarinn Hilmar Freyr Birgisson er í símanum .....
19.febrúar
Flutt 19.02.2021
Bólusetningar eru í fullum gangi og er þeim stýrt af heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins - við heyrum í Ragnheiði Ósk Erlendsdóttur hjúkrunarfræðingi hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
Íslandsstofa hefur lagt kapp á að halda Íslandi á heimskortinu þrátt fyrir faraldur og algert hrun í ferðalögum og þjónustu við ferðalanga. Árangurinn má meðal annars mæla í umfjöllun, en alls birtust meira en 1.800 greinar og fréttir um Ísland sem áttu uppruna sinn í samskiptum Íslandsstofu við fjölmiðla eða fjölluðu um verkefni á hennar vegum á síðasta ári. Og það er talið að náðst hafi til 750 milljón neytenda um allan heim. Sveinn Birkir Björnsson er forstöðumaður markaðssamskipta hjá Íslandsstofu.
Tinna Marína Jónsdóttir vakti fyrst athygli í fyrstu Idol-stjörnuleit keppninni. Fyrir tveimur árum greindist hún með MS sjúkdóminn en lét það ekki stoppa sig í líkamsræktinni. Í dag býr hún í Noregi þar sem hún er Noregsmeistari í ólympískum lyftingum. Ekki nóg með það heldur vinnur hún einnig á olíuborpalli. Við heyrum í henni á eftir.
Atvinnuleysi hefur aukist mikið hér á landi í covid-kreppunni eins og komið hefur fram og við var að búast. Atvinnuleysi hefur almennt verið lítið á Íslandi og minna en á hinum Norðurlöndunum en nú virðist landið skera sig úr og atvinnuleysi vera töluvert meira hér en á Norðurlöndunum - að því er virðist í fyrsta skipti í sögunni. Ari Skúlason hagfræðingur hjá Landsbankanum hefur rýnt í þessar tölur og hann ætlar að spjalla við okkur á eftir.
En við byrjum í Grikklandi, því mikil snjókoma og kuldi hefur hrjáð íbúa Aþenu síðastliðna daga og þótt nú hafi hlýnað og hlánað er rafmangsleysi víða og samgöngur og daglegt líf sem fóru úr skorðum enn ekki komið í fullan gang. Þóra Valsteinsdóttir býr í Aþenu.
18. febrúar
Flutt 18.02.2021
Töluvert hefur verið fjallað um rekstur spilakassa á íslandi að undanförnu og um rekstur Íslandsspila sem er í eigu Rauða krossins og Landsbjargar. Rauði krossinn hefur reynt að finna leiðir til að reka kassana á annan hátt og nú er sú hugmynd á borðunum að innleiða svokölluð spilakort. En hvað er það? Magnús Snæbjörnsson framkvæmdastjóri Íslandsspila kemur til okkar og gerir heiðarlega tilraun til að útskýra það fyrir okkur í Síðdegisútvarpinu.
Tíkin Hetja sem glímt hafði við alvarlegt sár á fæti hlaut lækningu á dögunum með svokölluðum fiskiroðsgræðlingi frá fyrirtækinu Kerecis. Um er að ræða þorskroð sem er notað við alvarlegum sárum. Steinunn Guðný Sveinsdóttir hjúkrunarfræðingur hjá Kerecis kemur til okkar á eftir og segir okkur frá þessari aðferð og það sem meira er hún kemur sýnishorn af roðinu með sér.
Það verður stór stund í kvöld þegar rannsóknarjeppinn Perseverance frá NASA lendir á Mars, hlaðinn tækjum og tólum - ef allt gengur að óskum. Ari Kristinn Jónsson rektor Háskólans í Reykjavík og fyrrverandi starfsmaður hjá NASA ætlar að tala við okkur um þennan merkilega leiðangur.
Á Norðurlandi er líf og fjör þessa dagana en þar eru margir gestir út af vetrarfríum í skólum og sumum finnst nóg um Gígja Hólmgeirsdóttir spjallar við okkur í beinni frá Akureyri og hún ræðir einnig við Ingibjörgu Bergmann Bragadóttur, veitingastjóra á Múlabergi á Akureyri
En við byrjum á konudeginum sem er á sunnudaginn. Er fólk jafn spennt fyrir honum eftir að Valentínusardagurinn ruddist inn í íslenska menningu. Auður Jónsdóttir rithöfundur veltir þessu fyrir sér með okkur.
17.feb
Flutt 17.02.2021
Í dag er öskudagurinn ástkæri þar sem börn klæða sig upp í búninga og jafnvel fullorðnir líka. En það er ekki sama í hvernig búninga er farið. Margir af búningum fortíðarinnar eru harðbannaðir í dag og hreinlega særandi. Stundum á fólk það líka til að fara í búning sem því finnst sniðugur en öðrum mislíkar hann. Þetta vekur upp siðfræðilegar spurningar. En hvað má og hvað má ekki í búningum. Inga Auðbjörg Kristjánsdóttir Straumland formaður Siðmenntar fer nánar í saumana á því með okkur í þættinum.
Tæknifyrirtækið Origo hefur undanfarið unnið með Landlæknisembættinu að ýmsum tæknilausnum vegna faraldursins. Núna er verið að vinna að stafrænum bólusetningarvottorðum sem okkur skilst að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafi sýnt töluverðan áhuga. Guðjón Vilhjálmsson, forstöðumaður heilbrigðislausna hjá Origo segir okkur meira um það.
Íslendingar eru orðnir ansi tónleikaþyrstir og það sama má segja um tónlistarfólk þjóðarinnar. Meðlimir hljómsveitarinnar ADHD eru þekktir fyrir mikla spilamensku enda eru meðlimirnir í vel yfir hundrað öðrum hljómsveitum samanlagt. ADHD mun halda tvenna tónleika í Múlanum sem er jazzklúbbur sem er starfandi í Hörpu. Síðdegisútvarpið heimsækir Óskar Guðjónsson sem er vægt til orða tekið spenntur fyrir kvöldinu.
Björn Berg Gunnarsson hjá Íslandsbanka kíkir til okkar á eftir. Hann ætlar að segja okkur frá ótrúlegu klúðri þegar bandaríski bankin Citibank millfærði hálfan milljarð Bandaríkjadala - óvart. Hann rifjar líka upp önnur þekkt klúður í viðskiptum.
Svo er loðnan mætt til Vestmannaeyja og mikil gleði í bænum enda hefur hún ekki sést þar sl. þrjú ár. Við hringjum á vaktina í Vinnslustöðina og heyrum í Benóný Þórissyni framleiðslustjóra.
Óvenju kalt hefur verið í Bandaríkjunum undanfarið og hefur kuldinn haft mikil áhrif á nær helming íbúa Bandaríkjanna og þá sérstaklega í suðurríkjunum. Milljónir manna eru án rafmagns vegna veðursins í Texas og þar hefur verið lýst yfir hamfaraástandi. Við heyrum í okkar manni á staðnum, Guðbrandi Gísla Brandssyni eða Brandy eins og hann er kallaður fyrir vestan.
16. mars
Flutt 16.02.2021
Meðal breytinga sem gert er ráð fyrir að ráðist verði í á landamærunum er heimild til að vísa fólki í sóttvarnahús ef það getur t.d. ekki gert grein fyrir hvar það ætlar að vera í sóttkví eða einangrun. Gylfi Þór Þorsteinsson umsjónarmaður Farsóttarhúsanna verður á línunni hjá okkur og segir okkur hvernig þetta leggst í hann.
Við ætlum að forvitnast um hvernig öskudagurinn verður haldinn hátíðlegur á morgun. Hann er með breyttu sniði þetta árið og virðist hvert bæjarfélag sníða sér stakk eftir vexti. Síðdegisútvarpið tekur stöðuna víðsvegar um landið og heyrir í Elvu Óskarsdóttur í Hveragerði, Guðrúnu Helgu Sigfúsdóttur í Háteigsskóla í Reykjavík, Hrafnhildi Guðbjörnsdóttur á Hólmavík og Sigríði Hrönn Gunnarsdóttur á Reyðarfirði.
Búið er að bólusetja rúmlega 15 milljónir Breta við Covid-19 sem telst fjórðungur þjóðarinnar. Þetta vekur vonir um að hægt verði að hefja afléttingu þeirra hafta sem eru í gildi vegna veirunnar. Margir vonast því til þess að útgöngubanninu verði aflétt í byrjun mars. Það er, að hægt verði að leyfa fólki að fara til skóla, vinnu og opna verslanir að nýju. Við heyrum í Sigurði Sverrissyni sem býr og starfar í Liverpool um stöðuna þar í landi.
Þennan dag árið 1981, fyrir 40 árum semsagt, gekk Engihjallaveðrið sem svo hefur verið kallað, yfir. Veðrið er kennt við Engihjalla í Kópavogi þar sem bílar fuku til á bílastæðum. Einar Sveinbjörnsso veðurfræðingur ætlar að rifja þetta upp með okkur á eftir.
Við heyrum í nýjum landsliðsþjálfara kokkalandsliðsins Ara Þór Gunnarssyni.
En við byrjum á G- vítamíni en undanfarnar vikur hefur Geðhjálp boðið landsmönnum upp á 30 skammta af G-vítamíni í formi ráðlegginga sem er ætlað að bæta geðheilsu. Dagatal með G-vítamínsskömmtum var sent á hvert heimili á Íslandi. Auk þess er hægt að nálgast dagatalið í völdum sundlaugum og verslunum um allt land. Átakinu lýkur á föstudag. Elín Ebba Ásmundsdóttir er framkvæmdastjóri Hlutverkaseturs.
15. febrúar
Flutt 15.02.2021
Skotárásin í Bústaðarhverfi um helgina þar sem karlmaður á fertugsaldri var skotinn til bana, hefur vakið óhug meðal þjóðarinnar en talað er um að málið tengist uppgjöri í undirheimunum. Rannsókn málsins er í fullum gangi og í algjörum forgangi hjá lögreglunni sem verst allra frétta af málinu. Við heyrum í Ásgeiri Þór Ásgeirssyni yfirlögregluþjóni á höfuðborgarsvæðinu og ræðum við hann um aukna hörku í undirheimunum og hvað lögreglan sé með á prjónunum til að verjast þessari hörku.
Herinn ætlar að taka hart á mótmælendum í Mjanmar sem krefjast þess að kjörnir fulltrúar verði látnir lausir úr haldi, þar á meðal Aung San Suu Kyi en flokkur hennar vann sigur í kosningum í landinu í nóvember. Herinn segir að brögð hafi verið í tafli og sigurinn byggi á kosningasvindli. Þá er þeim sem leggja stein í götu hersins hótað löngum fangelsisdómum. Lokað var á nettengingu landsmanna og hersveitir sendar út á götur víða um landið í morgun. Herinn hrifsaði til sín völd í Mjanmar 1. febrúar, rétt áður en nýkjörið þing átti að koma saman. Ólöf Ragnarsdóttir fréttamaður ætlar að skýra þessi mál betur fyrir okkur.
Fjalla- og síðar þyrluskíðaferðir hafa verið sérgreinar hjá fyrirtækinu Bergmönnum á Tröllaskaga um árabil. Jökull Bergmann hefur áratuga reynslu í leiðsögn um svæðið enda alinn upp á þessum slóðum og þekkir aðstæður vel. Hrafnhildur settist niður með Jökli og ræddi stöðuna hjá þeim og ýmislegt fleira.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn ætlar að setjast hjá okkur á eftir. Nú er fyrsta djammhelgin að baki - en krár og kemmtistaðir opnuðu í síðustu viku eftir langt hlé. Við fáum að vita hvernig gekk og eitt annað fleira.
Bryndís Jóhannesdóttir grunnskólakennari fékk miður skemmtilega heimsókn um helgina sem hún getur reyndar kennt sjálfri sér um. Víkingasveitin og sérhæfða sprengjusveit Landhelgisgæslunnar mættu heim til Bryndísar og skipuðu henni að rýma húsið í hvelli. Bryndís segir okkur nánar um málið.
12. febrúar
Flutt 12.02.2021
Nú eru 10 ár síðan PIP-púða málið komst í hámæli. Árið 2011 kom í ljós að um 400.000 konur í fjölmörgum löndum höfðu fengið grædda í sig brjóstapúða sem láku og innihéldu iðnaðarsilikon. Rúmlega 400 konur hér á landi fengu PIP-púða í brjóstaaðgerðum frá árinu 2000-2010. Meira en helmingur kvennanna fór í skaðabótamál við framleiðandann og í gær dæmdi franskur áfrýjunardómstóll eftirlitsfyrirtækið TUV Rheinland bótaskylt gagnvart konunum. Lögmaður þeirra segir okkur meira um málið í þættinum.
Alþjóðadagur útvarps er á morgun, laugardaginn 13. febrúar. Við gleðjumst á þessum degi yfir þeim lífseiga miðli sem útvarpið er. Til að fagna morgundeginum fáum við til okkar Önnu Marsibil Clausen starfsmann Rásar 1 sem er menntuð í útvarpsfræðum og Bússa eða Björn Þóri Sigurðsson sem var einn af frumkvöðlunum þegar íslenska útvarpsflóran snarbreyttist með tilkomu einkastöðva, en Bússi byrjaði sinn feril á Stjörnunni og hefur verið viðriðinn útvarp síðan.
Kínverjar fagna í dag nýju ári sem er gengið í garð. Það er ár uxans sem tekur við af ári rottunnar. Geir Sigurðsson prófessor í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands ætlar að fræða okkur um málið.
Bjarni Ingimarsson varaformaður Landssambands slökkviliðsmanna braut blað í sögu Síðdegisútvarpsins þegar hann mætti í viðtal til okkar í fyrradag. Hann er nefnilega fyrsti og eini fullbólusetti viðmælandi Síðdegisútvarpsins en hann var nýbúinn að fá seinni sprautuna frá Moderna þegar hann settist hjá okkur. Þegar við sáum fréttir af veikindum slökkviliðsmanna í kjölfar bólusetningarinnar hugsuðum við að sjálfsögðu til Bjarna og fórum að velta því fyrir okkur hvernig hann hefði það. Við sláum á þráðinn til hans á eftir.
Græni hatturinn hefur um langt árabil verið vinsæll tónleikastaður á Akureyri og fjöldinn allur af tónlistarmönnum komið þar fram og skemmt gestum með lifandi flutningi. Nú hefur staðurinn verið lokaður í 5 mánuði vegna covid faraldursins. Hrafnhildur bankaði upp á hjá eiganda Græna hattsins, Hauki Tryggvasyni og spurði út í stöðuna.
Vestfjarðastofa hefur veitt viðurkenningar fyrir fyrirmyndarverkefni Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða úr hópi þeirra verkefna sem hlutu styrk úr sjóðnum árið 2020. Og í flokki nýsköpunarverkefna var það Sýslið, miðstöð skapandi greina á Hólmavík sem fékk þessa viðurkenningu. En hvað er Sýslið? Ásta Þórisdóttir veit það.
11. febrúar
Flutt 11.02.2021
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra skrifaði grein í Fréttablaðið í dag í tilefni af fræðsluátakinu Þróunarsamvinna ber ávöxt. Þar kemur meðal annars fram að vegna faraldursins sem nú geisar gæti fjölgað í hópi sárafátækra um allt að 150 milljónum í lok þessa árs. Hvað getur Ísland gert, hvað er Ísland að gera og er það nóg? Utanríkisráðherra sest hjá okkur á eftir.
Leikfélag Akureyrar, í samvinnu við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, setur á svið hinn ævintýralega og vinsæla fjölskyldusöngleik Benedikt búálf eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson í Samkomuhúsinu á Akureyri í byrjun mars. Söngleikurinn, sem var frumsýndur árið 2002, er einn allra þekktasti barnasöngleikur þjóðarinnar og hefur töfrandi saga og grípandi tónlist Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar unnið hug og hjörtu íslenskra barna á öllum aldri. Við kíktum í heimsókn á æfingu fyrr í dag og ræddum við Björgvin Frans Gíslason sem fer með stórt hlutverk í sýningunni.
Við fáum líka bæjarstjórann á Akureyri til okkar í heimsókn og spyrjum út í bæjarmálin og hvernig gengur í rekstri bæjarins.
Fasteignaverð, eða það sem er kallað raunverð íbúða, hefur hækkað um meira en 40% frá árinu 2015 hér á landi. Töluvert meira en á hinum Norðurlöndunum. Hinsvegar virðist hækkun milli tímabila vera meiri í nágrannalöndunum undanfarið, eftir að faraldurinn skall á. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans þar sem er fjallað um fasteignamarkaðinn. Una Jónsdóttir hagfræðingur hjá Landsbankanum segir okkur meira um þetta.
Í dag er 112 dagurinn. Þetta er dagur framlínusveita landsins sem hafa sannarlega haft í nógu að snúast undanfarið. Haldið er upp á daginn um land allt en þó með mismunandi sniði. Á Siglufirði ætlar Björgunarsveitin Strákar að standa fyrir tónleikum klukkan átta í kvöld. Við heyrum í Ingvari Erlingssyni stjórnarmanni í björgunarsveitainni Strákum.
En við byrjum á hugvekju sem Víðir Reynisson flutti á fundi Almannavarna fyrr í dag.
10. febrúar
Flutt 10.02.2021
Már Gunnarsson tónlistarmaður er þessa dagana að vekja athygli á sölu Blindrafélagsins á leiðso?guhunda-dagatalinu til styrktar kaupum á hundum til að aðstoða blinda og sjónskerta. Hann er sjálfur á biðlista eftir hundi sem myndi færa hans hæfni, o?ryggi og sja?lfstæði upp a? hærra plan - eins og hann orðar það sjálfur.
Landssamband slökkviliðsmanna hefur sent umsögn til Velferðarnefndar Alþingis vegna breytingar á lögum um slysatryggingar almannatrygginga þar sem Landssambandið óskar eftir því að krabbamein hjá slökkviliðsmönnum verði skilgreint sem atvinnusjúkdómur enda sé krabbamein algengara hjá slökkviliðsmönnum en öðru vaktavinnufólki eins og staðfest hafi verið með rannsóknum. Við tölum við Bjarna Ingimarsson, varaformann félagsins og formann krabbameinsnefndar Landssambands slökkviliðsmanna.
Margir nýbakaðir foreldrar á höfuðborgarsvæðinu kannast vel við það vandamál að fá ekki leikskólapláss fyrir barnið sitt og lenda á biðlista sem er langur. Samkvæmt fréttablaðinu í morgun voru 737 börn, 12 mánaða og eldri, á biðlista í byrjun janúar. Margir leita þá til dagforeldra sem eru sjálfstætt starfandi einstaklingar sem hafa reynst mörgum vel. En hverjar eru kröfurnar til að gerast dagforeldri? Arna Hrönn Aradóttir daggæsluráðgjafi svarar því í þættinum í dag.
Við sláum á þráðinn til Spánar þar sem Sigríður Dögg Auðunsdóttir fréttamaður hefur átt heima undanfarna mánuði ásamt fjölskyldunni. Við spyrjum hana út í daglegt í líf í því landi í Evrópu sem hefur orðið einna verst úti í heimsfaraldrinum.
Við lítum einnig um öxl og tölum við Sverri Hreiðarsson eða Jolla eins og hann er kallaður. Árið 1997 var Sverrir sá heppni á tónleikum Sting í Laugardalshöll. Sverrir var dreginn upp á svið og fékk þann heiður að syngja eitt lag með goðinu. Við heyrum í Jolla, eða Sverri og fáum söguna af uppákomunni og frægðinni sem fylgdi í kjölfarið.
Vestmannaeyjar, Akureyri og Eyjafjörður koma best út í nýrri skoðanakönnun á búsetuskilyrðum, hamingju og viðhorfi til síns sveitarfélags. Það voru landshlutasamtök sveitarfélaganna ásamt Byggðastofnun sem gerður þessa könnun. Við ætlum að heyra í fólki á Akureyri í þættinum og fá að vita afhverju það er svona frábært að búa þar.
9. febrúar
Flutt 09.02.2021
Grein sem fimm heimspekingar við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Stokkhólmsháskóla skrifuðu í Fréttablaðið hefur vakið nokkra athygli. Þar eru bornar upp nokkrar spurningar sem varða stóru bóluefnisrannsóknina sem mikið hefur verið rætt um undanfarið. Það væri þá viðamikil rannsókn sem fæli í sér að bólusetja stóran hluta þjóðarinnar með bóluefni Pfizer-BioNtech og rannsaka t.d. hjarðónæmi þjóðar. Höfundarnir kalla eftir umræðu. Einn höfundur greinarinnar, Hlynur Orri Stefánsson, dósent í hagnýtri heimspeki við Stokkhólmsháskóla verður á línunni.
Laugardalshöll hefur verið undirbúin til að taka á móti miklum fjölda fólks í bólusetningar. Við kíktum þangað fyrr í dag og spjölluðum við Óskar Reykdalsson forstjóra heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins.
Réttarhöld hefjast yfir Donald Trump fyrrverandi forseta Bandaríkjanna kl. 18 í dag í öldungadeild þingsins. Demókratar vilja meina að forsetinn fyrrverandi hafi hvatt mótmælendur til að ráðast inn í þinghúsið þann 6. janúar síðastliðinn og ýtt undir óeirðir og ofbeldi sem meðal annars kostaði nokkur mannslíf. Þetta er í annað sinn sem Trump er ákærður til embættismissis. Hann hefur síðan látið af embætti og spurning hvaða þýðingu þessi réttarhöld hafa. Kristján Guy Burgess alþjóðastjórnmálafræðingur ætlar að ræða þetta við okkur á eftir.
Viðburðinum Hrækjandi #3 verður streymt í kvöld klukkan hálf níu. Lýsingin á viðburðinum er svohljóðandi: Ljóðið, hin ódauðlega zombía listformanna, mun næsta þriðjudagskvöld rísa aftur úr gröfinni til að viðra og streyma sér frá nýjum húsakynnum post-dreifingar. Eftir nær akkúrat árs dvöl snýr viðburðaserían Hrækjandi aftur úr kófiðdvalanum og löngu tímabært. Við heyrum í ljóðskáldinu Karítas M. Bjarkardóttur sem er einn höfuðpaur Hrækjandi #3.
Stærðarinnar ísspöng sem lagðist að höfninni við Tálknafjörð hélt bátunum í höfninni í gíslingu síðan í fyrradag. Það leiddi til þess að engu var landað í höfninni í gær eins og til stóð. En hvernig er staðan núna? Ólafur Þór Ólafsson sveitastjóri verður á línunni.
8. febrúar
Flutt 08.02.2021
Heilbrigðisyfirvöld í Suður Afríku hafa hætt við að nota bóluefni AstraZeneca gegn COVID-19, í það minnsta tímabundið. Ástæðan er rannsókn sem bendir til þess að það hafi takmarkaða virkni gegn hinu svokallaða suður-afríska afbrigði kórónaveirunnar. Við ræðum bóluefni og veiruafbrigði við Ingileif Jónsdóttur prófessor í ónæmisfræði við Háskóla Íslands og deildarstjóra hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Skráðar gistinætur voru tæplega þrjár milljónir talsins árið 2020 samkvæmt gistináttagrunni Hagstofunnar eða 64,8% færri en árið 2019. Nærri tvær af hverjum fimm hótelgistinóttum mátti rekja til Íslendinga en gistinætur þeirra voru um 536 þúsund árið 2020, ríflega fimmtungi fleiri en árið 2019. Það hlýtur að teljast jákvætt að íslendingar séu að ferðast innanlands en hvað þýðir þetta í stóra samhenginu? Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri SAF kemur til okkar á eftir.
Við forvitnumst líka um rannsókn vísindamanna Umhverfisstofnunar á þrávirkum lífrænum efnum í ryki innandyra. Gagnasöfnunin var áhugaverð - en hún fór fram með því að safna ryksugupokum af heimilum fólks. Eiríkur Baldursson sérfræðingur í efnamálum hjá Umhverfisstofnun segir okkur allt um málið.
Samkvæmt nýjum tölum frá Barnaverndarstofu þá hefur orðið gríðarleg fjölgun á tilkynningum til barnaverndarnefnda á milli ára og virðist sem kórónuveirufaraldurinn hafi mikil áhrif á fjölgunina. Við ræðum við Heiðu Björgu Pálmadóttur forstjóra Barnaverndarstofu í þættinum.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn fer yfir stöðuna nú þegar takmarkanir vegna faraldursins hafa verið rýmkaðar.
5. febrúar
Flutt 05.02.2021
Alþingi samþykkti í gær breytingar á sóttvarnalögum en þeim er til dæmis ætlað að skýra betur og skerpa á heimildum stjórnvalda til ýmissa aðgerða tengdum faraldrinum. Skimun á landamærum, sóttkví og heimildir til að vísa fólki í sóttvarnahús eru dæmi um það. Ólafur Þór Gunnarsson varaformaður velferðarnefndar og framsögumaður þessa máls ætlar að segja okkur hvað felst í þessum breytingum.
Þrekraunarkappinn íslenska ofurhetjan Einar Hansberg hefur nokkrum sinnum ratað inn á íslenska miðla vegna fjölda afreka sinna. Eitt sinni réri hann í yfir 50 klukkustundir og fór hann þá 500km til styrktar vinkonu sinni sem stuttu áður hafði misst manninn sinn. Seinna fór hann hringinn í kringum landið fyrir Unicef þar sem hann stoppaði í 36 bæjarfélögum réri , skíðaði eða hjólaði 13 þúsund km svo tók hann upp á því að synda samfleytt í tvo sólahringa til þess að vekja athygli á ofbeldi gegn börnum sem var átak fyrir Unicef. Nú er svo komið að því að um helgina stefnir Einar á að setja heimsmet í réttstöðulyftu þar sem hann ætlar að lyfta mestri heildarþyngd á einum sólahring sem skráð hefur verið. Það er gert til að vekja fólk til umhugsunar um velferð barna. Við heyrum í Einari Hansberg í þættinum.
Úkulellurnar hafa sent frá sér sitt fyrsta lag og ber það heitið Píkuprump. Lagið er eftir þær en textann gerði Bragni Valdimar Skúlason. Við fáum tvær Úkulellur í heimsókn og heyrum lagið í flutningi hópsins.
Úlfur Atlason verkefnisstjóri hjá SKEMA ætlar líka að segja að segja okkur frá Minecraft Vinnusmiðju þar sem nemendur fá að kynnast því hvernig bardagalist og vísindi blandast saman.
En við byrjum á Gettu Betur sem verður á dagskrá sjónvarpsins í kvöld en þá mætast lið Menntaskólans í Kópavogi og Kvennaskólans í Reykjavík í fyrstu viðureign átta liða úrslitanna. Kristjana Arnardsóttir spyrill og stjórnandi er sest hjá okkur ....
4. febrúar
Flutt 04.02.2021
Lætin í Rússlandi eftir handtöku Alexei Navalny virðist engan enda ætla að taka. Mörg þúsund manns hafa verið handtekin vegna mótmæla og í gær var rússneski ritstjórinn Sergei Smirnov dæmdur í 25 daga fangelsi fyrir tísts. Hann endurtísti tísti annars manns um að hann væri líkur söngvara hljómsveitarinnar Tarakany Dmitry Spirin. En hvað er í raun og veru í gangi þarna? Ólöf Ragnarsdóttir fréttamaður freistar þess að útskýra það fyrir okkur í Síðdegisútvarpinu.
Andrés Ingi Jónsson þingmaður utan flokka ætlar að segja okkur frá frumvarpi sem hann lagði fram ásamt nokkrum þingmönnum Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar um lækkun kosningaaldurs úr 18 árum í 16 ár.
Vetrarhátíð hefst í dag í Reykjavík og er hún með öðruvísi sniði en hún hefur verið áður. Sesselja Hlín Jónasardóttir stýrir Ljósaslóð sem er ganga sem farin er um miðbæ Reykjavikur. Hrafnhildur kynnti sér málið.
Við ætlum líka að forvitnast um verkefni Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur sem snúa að tónleikastöðum í borginni. Á morgun verða pallborðsumræður í streymi þar sem rætt verður um mikilvægi, hlutverk og framtíð tónleikastaða í Reykjavík. Á laugardaginn taka tónleikastaðir í Reykjavík svo þátt í Open Club Day sem hefur það að markmiði að vekja athygli á þeirri starfsemi sem fer fram á tónleikastöðum, þeim störfum sem þeir skapa og því mikilvæga hlutverki sem þeir gegna fyrir menningarlíf borga. María Rut Reynisdóttir verkefnisstjóri Tónlistarborgarinnar og Helgi Durhuus tónleikahaldari á Gauknum ætla að segja okkur frá þessu og myndarlegum styrk sem verkefnið fékk frá Evrópusambandinu.
Fjallagarpurinn John Snorri nálgast óðfluga markmið sitt um að ná á tind K2 að vetri til. Við náðum sambandi við hann rétt áðan þegar hann var að leggja í lokaáfangann.
Námskeið í að tálga tré hafa notið töluverðra vinsælda hér á landi undanfarin ár. Vinsældirnar eru orðnar svo miklar að nú er skortur á leiðbeinendum sem kunna réttu handtökin. Þá er aðeins eitt til ráða, að halda námskeið fyrir fólk sem vill vera leiðbeinendur á slíkum námskeiðum. Endurmenntun Landbúnaðaraskólans og Ólafur Oddsson verða með slík námskeið yfir allt árið. Við tölum við Ólaf í þættinum.
3. febrúar
Flutt 03.02.2021
Það hafa verið uppi áætlanir um Sundabraut frá Reykjavík yfir eða undir sundin og upp á Kjalarnes, síðan 1975. Eflaust er hugmyndin enn eldri. Og í dag kynnti Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra þann kost sem þykir vænlegastur - það er sundabrú yfir Klettsvík í framhaldi af Holtavegi og í Gufunes - sá kostur þykir töluvert hagkvæmari en jarðgöng undir víkina. Þaðan lægi svo brautin um Geldinganes og Álfsnes, yfir Kollafjörð og upp á Kjalarnes. Þetta eru mörg nes og nokkrar brýr. Sigurður Ingi kemur til okkar.
Hilmar Símonarsson kraftlyftingakappi hjá Kraftlyftingafélagi Ólafsfjarðar gerði sér lítið fyrir á Reykjavík International Games um helgina og sló þrjú Íslandsmet. Þetta er fyrsta alþjóðlega mótið sem Hilmar tekur þátt í. Við í Síðdegisútvarpinu sláum á þráðinn til Hilmars sem er á fullu í múrvinnu.
Alþingi samþykkti í dag þingsályktun um orkuskipti í flugi á Íslandi. Settur verði á fót starfshópur sérfræðinga til að móta stefnu og aðgerðaáætlun um orkuskipti í flugi á Íslandi. Starfshópurinn geri tillögur og ræði eftirfarandi: a. Hvernig Ísland geti orðið í fremstu röð í orkuskiptum í flugi. b. Hvernig styðja megi við nýsköpun á sviði orkuskipta í flugi. c. Fýsileika landsins með tilliti til veðurfars og þess hvaða innviðir þurfi að vera til staðar hér á landi vegna orkuskipta í flugi, m.a. í tengslum við nýsköpun, umhverfisvæna orkugjafa og þátttöku í prófunum og alþjóðlegri þróun orkuskipta í flugi. d. Að sett verði markmið um að byrjað verði að nota umhverfisvæna orkugjafa í innanlandsflugi fyrir árið 2030 og hvernig áætlun um það samrýmist öðrum áætlunum ríkisins í orkuskiptum, nýsköpun og loftslagsmálum. Jón Gunnarsson þingmaður sjálfstæðisflokks sem flutti tillöguna kemur til okkar.
Portúgalska heilbrigðiskerfið er komið að þolmörkum eftir mikla uppsveiflu faraldursins þar í landi síðustu vikur og daga. Örfá pláss eru eftir á gjörgæslu í öllu landinu og nú er verið að flytja til landsins hjúkrunarfólk, tól og tæki til að hjálpa til í ástandinu. Við heyrum í Maríönnu Friðjónsdóttur fjölmiðlara sem hefur haft vetrardvöl í Portúgal undanfarin ár og hún segir okkur betur frá ástandinu þar í landi.
Við forvitnumst líka um Neyðarkall björgunarsveitanna en sú hefðbunda fjáröflun er að hefjast. Og nú eru björgunarhundarnir settir í fókus. Þórir Sigurhansson hefur þjálfað björgunarhunda í áratugi og þar á meðal eina sérþjálfaða sporhund landsins. Hann verður á línunni.
2. febrúar
Flutt 02.02.2021
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur skrifað forstjóra Disney bréf og lýst yfir vonbrigðum með að ekki sé boðið upp á íslenskt tal og texta á streymisveitu Disney +, því mikið af slíku efni sé til nú þegar. Við heyrum í henni á eftir.
Í gær hófst forkeppni Netöryggiskeppni Íslands og stendur forkeppnin til 15. febrúar. Þetta er í annað skipti sem þessi keppni er haldin á Íslandi en með forkeppninni er verið að sigta út hverjir taka svo þátt í Netöryggiskeppni Evrópu eða European Cyber Security Challenge sem fer fram í Prag í september á þessu ári. Netöryggiskeppnin er haldin að frumkvæði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og í samvinnu við Menntamálastofnun og fyrirtækið Syndis, sem hefur umsjón með framkvæmd keppninnar. Við heyrum í framkvæmdastjóra Syndis, Valdimari Óskarssyni.
Meðlimir Brimbrettafélags Íslands eru allt annað en sáttir þessa dagana og er ástæðan fyrirhuguð stækkun Sveitarfélagsins Ölfus á hafnargarðinum í Þorláksshöfn. Með stækkuninni mun einn vinsælasti og áreiðanlegasti brimbrettastaður á Íslandi eyðileggjast. Brimbrettafélagið hefur sett af stað undirskriftasöfnun til að mótmæla fyrirhugaðri stækkun. Við ræðum við Steinarr Lár formann Brimbrettafélags Íslands.
Í dag bauð Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu öllum íbúum svæðisins 90 ára og eldri, þ.e. þeim sem fæddir eru árið 1931 eða fyrr, bólusetningu við kórónuveirunni að Suðurlandsbraut 34. Við kíktum þangað og ræddum við Margréti Héðinsdóttur hjúkrunarfræðing og nokkra heldri borgara sem búnir voru að fá fyrri sprautuna.
Embætti landlæknis og Tannlæknafélag Íslands standa fyrir tannverndarviku 1.-5. febrúar með skilaboðum til landsmanna um að huga vel að heilsunni. Áhersla í ár er á súra orkudrykki sem innihalda koffín og sérfræðingarnir telja að við þurfum öll að vera betur upplýst um skaðleg áhrif orkudrykkja bæði á almenna heilsu og tannheilsu ungmenna. Íris Þórsdóttir tannlæknir kemur til okkar og fræðir okkur um orkudrykki og tannheilsu.
1. febrúar
Flutt 01.02.2021
Drífa Snædal forseti ASÍ segir að ný skýrsla um fjölda óskráðra íbúða og leiðir til þess að fá eigendur óskráðra íbúða til að skrá þær opinberlega, sé "brýning til okkar allra og ekki síst stjórnvalda að spýta í lófana og tryggja öllum mannsæmandi húsnæði á viðráðanlegum kjörum." Vinnuhópurinn sem tók skýrsluna saman telur að fimm til sjö þúsund manns búi í óleyfisíbúðum á Íslandi, húsnæði sem er skipulagt undir atvinnustarfsemi en nýtt til íbúðar. Drífa verður gestur okkar á eftir.
Þjóðleikhúsið hefur verið að óska eftir hugmyndum um umfjöllunarefni fyrir nýtt og spennandi verkefni fyrir ungt fólk, Trúnó, sem er verið að þróa á glænýju sviði Þjóðleikhússins, Loftinu. Skilafrestur rennur út um miðnætti svo nú fer hver að verða síðastur til að sjá sína sögu á sviðinu. Dominique Sigrúnardóttir og Sigga Dögg kynfræðingur hafa umsjón með verkefninu. Sigga segir okkur nánar frá Trúnó í þættinum.
Ólympíuleikarnir verða settir í Tókýó í Japan 23. júlí næstkomandi. Ef allt fer eins og lagt er upp með. Við ætlum að heyra af undirbúningi og framkvæmd Ólympíuleika í skugga heimsfaraldurs. Einar Örn Jónsson íþróttafréttamaður fer yfir þetta með okkur.
Stelpurnar okkar í íslenska kvennalandsliðinu í körfubolta eru komnar til Slóveníu eftir langt ferðalag með krókaleiðum. Stelpurnar eru að fara að taka þátt í undankeppni Evrópumótsins. Þær leika við Grikki 4. febrúar og 6. febrúar eiga þær leik við heimastúlkurnar í Slóveníu. Við hringjum í formann körfuboltasambandsins og fararstjórann Hannes Jónsson.
Ungir umhverfissinnar hafa nú fundað með öllum þingflokkum að undanskildum Flokki Fólksins til að ræða um frammistöðu Íslands í loftslagsmálum. Fulltrúar samtakanna hittu líka forsætisráðherra til að ræða þennan mikilvæga málaflokk, nú á kosningaári. Við heyrum í formanni samtkanna Þorgerði Maríu Þorbjarnadóttur.
Dagurinn í dag er dagur kvenfélagskonunnar. Og fyrir nákvæmlega ári síðan, 1. febrúar 2020, fagnaði Kvenfélagasambandið 90 ára afmæli. Við það tilefni réðst sambandið í landssöfnunina "Gjöf til allra kvenna á Íslandi." Okkur skilst að það hafi safnast tugir milljóna sem á að nýta til kaupa á tækjum og búnaði sem mun stuðla að bættri heilsuvernd kvenna um allt land. Guðrún Þórðardóttir forseti Kvenfélagasambands Íslands segir okkur meira.
29. janúar
Flutt 29.01.2021
Ekkert kórónuveirusmit greindist hér á landi í gær en einn í seinni skimun á landamærum. Ísland hefur verið skilgreint sem grænt svæði af Sóttvarnastofnun Evrópu og er það Evrópuland, þar sem gögn liggja fyrir, sem er með lægstu tíðni kórónuveirusmita. Ísland er þar með farið úr hópi appelsínugulra ríkja þar sem það hafði verið síðan um miðjan nóvember. Þar áður var Ísland skilgreint sem rautt ríki. Það er því óhætt að segja að staðan sé góð hér á landi og margfalt betri en í mörgum löndum í kringum okkur. Við ætlum að að heyra í Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni á eftir. Hann hefur látið í það skína að ef til vill verði takmörkunum aflétt að einhverju leyti bráðlega. Við spyrjum hann líka út í bóluefni og deilurnar um afhendingu þess.
Í gær var haldinn kynningarfundur um skipulagsáfor vegna Einbúavirkjunar í Skjálfandafljóti í Bárðardal. Að lokinni kynningunni voru umræður þar sem fulltrúar framkvæmdarinnar sátu fyrir svörum. Við heyrum í Guðrúnu Sigríði Tryggvadóttur, bónda í Svartárkoti í Bárðardal, sem var viðstödd fundinn í gær og athugum hvernig hljóðið er í íbúum Bárðardals gagnvart fyrirhugaðri virkjun. Gígja Hólmgeirsóttir fréttamaður kynnti sér málið.
Skotárásir á bíl borgarstjóra og húsnæði stjórnmálaflokka hafa vakið mikinn ugg. Færsla varaborgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að borgarstjórinn þyrfti bara að „taka því“ að byltingin væri „komin heim“ og að Dagur þyrfti að „byrja á sjálfum sér“ varð til þess að varaborgarfulltrúinn vék úr þeim ráðum og nefndum sem hann sat í. Oddviti Sjálfstæðisflokksins segir að málið sé tekið alvarlega og ummælin hafi verið ólíðandi. Forsætisnefnd Reykjavíkurborgar samþykkti bókun á fundi fyrr í dag þar sem nefndin fordæmdi árásina á bíl borgarstjóra og árásir á skrifstofur stjórnmálaflokka. Þar sagði að ofbeldið væri aðför að samfélaginu og með öllu óásættanlegt. Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir borgarfulltrúi Viðreisnar og formaður borgarráðs ætla að setjast hjá okkur og ræða þessi mál.
Í gær var fyrsti sólardagur á Siglufirði en sólin hvarf þaðan um miðjan nóvember og hefur ekki sést síðan - fyrr en í gær sökum hárra fjalla. Þessu hefur örugglega verið fagnað þar í bæ, við heyrum í Anítu Elifsen safnstjóra Síldarminjasafnsins.
En við byrjum á kúnni Smugu sem setti á dögunum nýtt íslandsmet í afurðasemi en hún mjólkaði 14.565 kg á síðasta ári og sló þar með fyrra íslandsmet sem var 14. 345 kg á árinu áður. Halldór Jónasson bóndi á Ytri Hofdölum í Skagafirði.
28. janúar
Flutt 28.01.2021
Ísland fær verstu spillingareinkunn Norðurlandanna í úttekt Transparency International, sem eru alþjóðleg samtök gegn spillingu. Undanfarin ár hefur spillingarvísitalan hér á landi lækkað jafnt og þétt og situr Ísland nú í 17. sæti á lista yfir lönd þar sem spilling þrífst hvað verst. Til þess að land sé talið laust við spillingu þarf það að ná 100 stigum. Ekkert land nær því, en Nýja Sjáland og Danmörk sitja í efsta sæti listans með 88 stig. Ísland er neðst Norðurlanda í 17. sæti með 75 stig. Ísland deilir 17. sætinu með Eistlandi. Í seinustu mælingu var Ísland í 11. sæti árið 2019 með 78 stig. Árni Múli Jónasson framkvæmdastjóri Íslandsdeildar samakanna segir okkur meira af þessu á eftir.
Matvælastofnun bendir á að skæð fuglaflensa haldi nú áfram að breiðast út víða um heim, m.a. í Evrópu og vill að fuglaeigendur hér búi sig undir hertar reglur um sóttvarnir. Við heyrum Brigitte Brugger, dýralækni alifuglasjúkdóma hjá Matvælastofnun.
Alþjóðlegi persónuverndardagurinn er í dag. Við ætlum að tala við Ölmu Tryggvadóttur, persónuverndarfulltrúa Landsbankans, en hún hefur mikið skoðað persónuvernd barna og ungmenna á netinu og hætturnar sem geta leynst þar.
Á laugardaginn ætlar Hildur Loftsdóttir, rithöfundur, kennari og blaðamaður að hafa umsjón með viðburði þar sem hægt verður að æfa íslenskuna og hafa gaman í leiðinni.
Degi B. Eggertssyni borgarstjóra var illa brugðið eftir að í ljós kom að skotið hefði verið úr byssu á bílinn hans, sennilega við heimili hans í Reykjavík. Við heyrum viðtal Höskuldar Kára Schraam fréttamanns við Dag.
Þorgeir Pálsson sveitarstjóri Strandabyggðar sagði frá slökkvibíl sveitarfélagsins sem er til sölu.
27. janúar
Flutt 27.01.2021
Í morgun ákvað Lögreglan á Norðurlandi vestra í samráði við ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands að loka hafnarsvæðinu á Hofsósi vegna snjóflóðahættu. Í tilkynningu lögreglu á Facebook kom fram að stór sprunga hafi myndast í snjóalög ofan við húsnæði Vesturfarasetursins. Við ætlum að hringja norður og heyra í Sigfúsi Inga Sigfússyni sveitarstjóra í Skagafirði og fá það nýjasta í stöðunni þar.
Nichole Leigh Mosty var í gær ráðin í stöðu forstöðumanns Fjölmenningarseturs sem staðsett er á ísafirði. Nichole er skipuð til fimm ára og tekur til starfa 1. mars næstkomandi. Nichole segist vera fyrsta erlenda konan sem fer fyrir ríkisstofnun hér á landi og því um sögulega skipun að ræða. Hún kemur til okkar kl. fimm.
Við kynnum okkur einnig leiksýninguna Útlendinginn sem er aftur að fara á fjalirnar í Borgarleikhúsinu. Við tölum við höfundinn og eina leikara sýningarinnar, Friðgeir Einarsson. Í sýningunni fjallar Friðgeir um líkfundarmál frá 1970 sem átti sér stað í Ísdal, nálægt Bergen í Noregi þar sem Friðgeir er búsettur.
Fyrir nokkrum árum sagði Ragna Erlingsdóttir upp starfi sínu sem leikskólastjóri til 18 ára á Svalbarðseyri. Ragna ákvað að snúa sér alfarið að vörulínu úr rababörum. Hugmyndina fékk hún eftir að hún skráði sig á námskeið árið 2016, fyrir konur sem hyggja á atvinnurekstur. Við heyrum í Rögnu og forvitnumst um töfra rababarans og hvað sé hægt að gera úr honum.
Næstu helgi er komið að hinni árlegu garðfuglatalningu sem Fuglavernd stendur fyrir. Við heyrum í Guðrúnu Láru Pálmadóttur hjá Fuglavernd, sem fer yfir það með okkur hverig við teljum fuglana og hvar við getum nálgast hjálpargögn til að greina þá.
26. janúar
Flutt 26.01.2021
Verðbólga síðustu tólf mánaða mældist 4,3 prósent. Verðbólgan fer þar með yfir varúðarmörk Seðlabankans í fyrsta sinn í sjö ár. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir ástæðu til að hafa ákveðnar áhyggjur, en vonast til þess að þessi toppur mælist í eitt skipti og gangi svo til baka. Það skipti öllu máli að við stöndum saman gegn verðlagshækkunum í landinu. Við ætlum að tala við Ernu Björgu Sverrisdóttur aðalhagfræðing Arion banka um þessa þróun.
Fullt staðnám mun hefjast í öllum kennslustundum 1. febrúar nk. í Menntaskólanum við Hamrahlíð en kennsla hefur af stórum hluta til verið með rafrænum hætti síðustu mánuði. Það hlýtur að lyfta brúninni hjá nemendum og kennurum skólans, við heyrum í Steini Jóhannssyni rektor skólans í þættinum.
Það voru mikil læti í nokkrum borgum í Hollandi í gærkvöldi þar sem þúsundir mótmæltu framlengdu útgöngubanni stjórnvalda vegna covid 19 faraldursins. Um 150 voru handtekin. Verst var ástandið í Rotterdam þar sem lögregla skaut viðvörunarskotum og táragasi á mótmælendur og flestir voru handteknir þar. Sóley Tómasdóttir býr og starfar í borginni Nijmegen sem fór ekki varhluta af þessum mótmælum. Við heyrum í henni.
Það kemur fyrir að við í Síðdegisútvarpinu lítum um öxl og rifjum upp gamlar fréttir. Þennan dag fyrir 30 árum mátti sjá glæsilega mynd á forsíðu DV af Þóri Guðmundssyni sem nú er ritstjóri fréttastofu Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar ásamt konu hans Önnu Steinu og sjálfum Dalai Lama á góðri stundu. Við hringjum í Þóri og fáum söguna á bak við myndina.
Þorleifur Örn Arnarsson hefur stýrt stórum verkefnum í leikhúsum í Berlín og Hamborg í Þýskalandi undanfarin ár. Það hefur lítið verið hægt að sýna undanfarið vegna faraldursins og hann er kominn heim til Íslands en hann er listrænn ráðgjafi við Þjóðleikhúsið - ásamt í því að gegna enn stöðu í Þýskalandi. Hann ætlar að kíkja til okkar í kaffibolla á eftir.
Hæfileikakeppnin Skjálfti fæðist á Þorlákshöfn í vor. Skjálfti er sunnlensk útgáfa af Skrekk, hæfileikakeppni ungmenna í grunnskólum Reykjavíkurborgar, sem hefur farið fram með góðum árangri í 30 ár. Ása Berglind Hjálmarsdóttir er sú sem mun stýra þessum viðburði í Þorlákshöfn.
25. janúar
Flutt 25.01.2021
Tugþúsundir mótmæltu um helgina í um 100 borgum í Rússlandi og kröfðust þess að stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalny yrði látinn laus úr fangelsi. Hann var hætt kominn fyrir nokkrum mánuðum eftir að eitrað var fyrir honum. Hann var handtekinn þegar hann sneri aftur til Rússlands eftir að hafa leitað sér lækninga í Þýskalandi. Lögreglan tók hart á mótmælendum og margir voru handteknir. Árni Þór Sigurðsson sendiherra Íslands í Moskvu ætlar að fara yfir þessi mál með okkur á eftir.
Nokkrir frumkvöðlar sem starfa við nýsköpun á þróunarsetrinu Breið á Akranesi hafa verið að þróa matvælaplast úr sjávarþara. Ein þeirra er Sigríður Kristinsdóttir umhverfis og auðlindafræðingur. Við heyrum í Sigríði og heyrum meira af þessari bráðsnjöllu hugmynd.
Við ætlum að forvitnast aðeins um bóluefnin gegn Covid 19 og þá ekki þessi sem við erum að bíða eftir hér á landi; það er bóluefni Pfizer og BioNtecc, Moderna og Astra Zenica - heldur hin bóluefnin sem hafa verið þróuð í Rússlandi, Kína og Indlandi t.d. Afhverju er ekki von á þeim hér og annarsstaðar í Evrópu? Ingileif Jónsdóttir prófessor í ónæmisfræði og deildarstjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu fer yfir þetta með okkur.
Fimmaurabrandarafjelagið hefur sent frá sér ekki eina heldur tvær bækur með fimmaurabröndurum en félagið heldur úti risastórum hópi á Facebook þar sem fimmaurabrandar fjúka í þúsundatali. Kristján B. Heiðarsson er aðalmaðurinn í Fimmaurabrandarafjelaginu - hann verður á línunni.
Undanfarið hefur töluvert verið í fréttum um loðnuleit í kringum Ísland og nú er hún fundin. Bátar víðsvegar af landinu streyma út á haf og einn þeirra sem fór út í morgun er Polar Amaroq. Við heyrum í skipstjóranum Sigurði Grétari Guðmundssyni sem er staddur austan við Seyðisfjarðardýpi.
22. janúar
Flutt 22.01.2021
Mikil vetrartíð hefur staðið yfir fyrir norðan síðustu daga og siglfirðingar hafa verið lokaðir inni í nokkra sólahringa fyrir utan smá glugga sem opnaðist í gær. Þar er snjóflóðahætta og veðurspáin er ekki góð við heyrum í Elínu Björk Jónasdóttur veðurfræðingi eftir nokkrar mínútur.
Starfsfólk skrifstofu Samfylkingarinnar gerði lögregu viðvart í morgun þegar það mætti til vinnu og sá göt á rúðum húsnæðisins við Sóltún 26, sem virðast vera eftir byssukúlur. Tæknideild lögreglu rannsakar nú málið. Við ætlum að forvitnast um þetta stórfurðulega mál og heyrum í Jóhanni Karli Þórissyni yfirlögregluþjóni á höfuðborgarsvæðinu.
Við ætlum líka að heyra af bjórnum Loftur Lager sem er framleiddur til minningar um Loft Gunnarsson sem lést langt um aldur fram og mun allur ágóði af sölu bjórsins renna óskiptur í minningarsjóðinn, sem hefur allt frá stofnun hans unnið að bættum hag heimilislausra og jaðarsettra hópa. Við ræðum við Gunnar Hilmarsson einn af umsjónarmönnum sjóðsins.
En við byrjum á kraftaverki. Íslenska þjóðin hefur fylgst grannt með Guðmundi Felix Grétarssyni sem fór nýverið í 15 klukkustunda aðgerð í Frakklandi þar sem græddar voru á hann hendur og axlir. Aðgerðin gekk vel og eftir að hafa losnað af gjörgæslu sendi Guðmundur þjóðinni kveðju.
21.janúar
Flutt 21.01.2021
Leiksýningin Vertu Úlfur! er byggð á nýlegri sjálfsævisögulegri frásögn Héðins Unnsteinssonar sem vakti verðskuldaða athygli og var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Sýningin verður frumsýnd í Þjóðleikhúsinu á morgun og Síðdegisútvarpið hitti leikstjórann Unni Ösp Stefánsdóttir á stóra sviðinu. Eini leikari sýningarinnar er Björn Thors eiginmaður Unnar.
Nú getur fólk sem hefur verið bólusett gegn kórónuveirunni fengið rafrænt vottorð um að það hafi verið bólusett. Markmiðið er að greiða för fólks milli landa, þannig að einstaklingar geti framvísað bóluefnarvottorði á landamærum og séu þá undanþegnir sóttvarnaráðstöfunum vegna COVID-19 í samræmi við reglur hlutaðeigandi lands. Ingi Steinar Ingason hjá embætti landlæknis ætlar að segja okkur betur frá þessu.
Mikið hefur verið rætt og ritað um andlitsgrímur síðan að Covid -19 faraldurinn skall á. Víða er búið að herða reglur varðandi notkun gríma og einungis ákveðnar tegundir leyfðar svokallaðar FFP2 grímur. En hvernig skyldi þessu vera háttað hér á landi ? Hvaða grímur má nota og hvaða grímur uppfylla ekki skilyrðin sem sett eru ? Við heyrum í Ástu ST. Atladóttur hjúkrunarfræðingi á sóttvarnarsviði Landlæknisembættisins í þættinum.
Í gær voru níu hús rýmd á Siglufirði vegna snjóflóðahættu. Staðan er óbreytt í dag og íbúar vita ekki hvenær þeir geta snúið aftur heim til sín. Gígja Hólmgeirsdóttir fór í dag til Siglufjarðar og talaði þar við Helenu Dýrfjörð, sem er ein þeirra sem þurfi að yfirgefa heimili sitt í gær.
Saman fyrir Seyðisfjörð er rafræn listahátíð sem fer fram dagana 25. -31. janúar. Hátíðin er haldin í framhaldi af hamförunum sem dundu á íbúum Seyðisfjarðar þegar aurskriður og flóð hrifsuðu með sér heilu húsin og fjöldi þurfti að yfirgefa heimili sín. Ívar Pétur Kjartansson tónlistarmaður er einn þeirra sem ætlar að koma fram á þessari hátíð og hann er í símanum.
20. janúar
Flutt 20.01.2021
Núna klukkan fimm mun Joe Biden sverja embættiseið við Hvíta húsið í Washingtonborg í Bandaríkjunum og verða 46. forseti Bandaríkjanna. Öryggisgæslan er gífurleg af ótta við hryðjuverk eða ofbeldisfull mótmæli, eftir innrásina í þinghúsið fyrir tveimur vikum. Við ætlum að heyra í Ingólfi Bjarna Sigfússyni fréttamanni sem er á staðnum og fylgist með.
Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur í bandarískum stjórnmálum ætlar líka að ræða við okkur um viðskilnað Trumps og væntingarnar til Joe Biden og Kamala Harris.
Í dag var sett í loftið upplýsingasíða Almannavarna um stöðu bólusetninga. Við ætlum að tala við Víði Reynisson og fá að vita allt um málið.
Við fáum líka að heyra viðtöl við leikmenn Íslands á HM í handbolta eftir naumt tap gegn Sviss áðan.
Snemma í morgun féll snjóflóð á skíðasvæðið á Siglufirði. Flóðið skall á skíðaskálanum og skíðaleigunni sem er í gám nálægt skálanu. Tjónið er verulegt þar sem skíðaskálinn fór af grunni sínum. Við heyrum í Agli Rögnvaldssyni svæðisstjóra skíðasvæðisins.
Og núna áðan var ákveðið að rýma níu íbúðarhús við tvær götur syðst í byggðinni á Siglufirði vegna snjóflóðahættu. Viðbúnaðarstig á Norðurlandi hefur verið hækkað í hættustig. Þá er varðskipið Týr á leiðinni norður. Elías Pétursson bæjarstjóri Fjallabyggðar.
19. janúar
Flutt 19.01.2021
Yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar segir heimsbyggðina á barmi einskonar siðferðislegs stórslyss. Ríkari löndin fari fram fyrir í röðina og birgi sig upp af bóluefni gegn Covid 19 en hin fátækari sitji eftir. Það sé ekki rétt að bólusetja ungt og heilbrigt fólk í ríkum löndum á undan heilbrigðsstarfsfólki og öldruðum í fátækum ríkjum. Henry Alexander Henrysson heimspekingur ætlar að vera á línunni á eftir og ræða þessi mál við okkur.
Alþingi kom saman í gær í fyrsta sinn eftir jólafrí og umræður stóðu langt fram á kvöld í gær um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Í dag m.a. fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur á dagskrá en frumvarp hennar um stuðning við einkarekna fjölmiðla á Íslandi er nú til meðferðar á Alþingi í þriðja sinn. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fréttamaður spjallar við okkur hér rétt á eftir beint frá Alþingi
Síðustu klukkutímar Donalds Trump í embætti virðast ætla að verða afar áhugaverðir, en hann lætur af embætti á morgun. CNN segir frá því að hann hafi verið í vondu skapi undanfarna daga, honum þyki samflokksfólk sitt hafa yfirgefið sig og að hann hafi í raun unnið kosningarnar. Stjörnufansinn sem ætlar að taka þátt í embættistöku Bidens og Harris er sagður fara í taugarnar á honum enda hafi frægasta fólkið forðast Trump eins og heitan eldinn. Fréttir af því að forsetinn fráfarandi hyggist náða um 100 manns, þar á meðal rapparann Lil Wayne, dóttur sína, tengdason og sjálfan sig, hafa vakið athygli og áform um styttugarð með styttum gerðum eftir ýmsu frægðarfólki. Við ræðum síðustu verk Donalds Trump í embætti við Kristján Guy Burgess, alþjóðastjórnmálafræðing.
Síðdegisútvarpið hefur fylgst grannt með John Snorra Sigurjónssyni sem freistar þess nú að komast á topp fjallsins K2. Ferðin hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig og fréttir hafa borist af dauðsföllum fjallagarpa sem höfðu sama markmið og John Snorri. Einnig hefur John Snorri verið að aðstoða Pakistanska herinn við leitina að líki bandaríska fjallgöngumannsins Alex Goldfrab sem lést nýlega á fjallinu. Við heyrum í John Snorra í þættinum.
Íslendingar unnu öruggan sigur á Marokkó á HM í handbolta karla í gær. Leikurinn var grófur og þrír úr marokóska liðinu fengu rauð spjöld eftir afar ljót brot. Við heyrum í leikmönnum Íslands og þjálfaranum á eftir.
En við byrjum á útihlaupum því nú ætlar SÍBS að standa fyrir fjarþjálfun fyrir þá sem vilja byrja að hlaupa. Stofnaður verður FB hópur þar sem haldið verður utan um hvern og einn. Fríða Rún Þórðardóttir næringarfræðingur og hlaupari er annar tveggja þjálfara á námske
18.janúar
Flutt 18.01.2021
Við ætlum að forvitnast um verkefni sem meistaranemar í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík hafa unnið undanfarið og er nú tilnefnt til nýsköpnarverðlauna forseta Íslands sem verða afhent í þessari viku. Verkefni er byggt á rannsóknum sem benda til þess að með því að örva heilabylgjur af gammatíðni, sem dofna verulega í Alzheimers-sjúklingum, sé hægt að stöðva hrörnun eða jafnvel snúa þróuninni á sjúkdómnum við. Bjarki Freyr Sveinbjarnarson meistaranemi í tölvunarfræði við HR segir okkur allt um málið.
Meðal þess sem kom fram á upplýsingafundi Almannavarna í dag var að upplýsingagjöf til smitrakningateymis væri ekki nógu góð
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn sagði á fundinum að eftir því sem hefur liðið á, hafi upplýsingagjöf fólks til smitrakningarteymisins versnað. Við ætlum að ræða við Rögnvald hér rétt á eftir og spyrja hann út í þetta og Þorrakúluna sem við erum hvött til að tileinka okkur.
Pétur Örn Guðmundsson tónlistarmaður sem oftar en ekki er kallaður Pétur Jesú hefur frá því elstu menn muna vakið athygli fyrir sítt og mikið rautt hár og ansi þétt skegg sem undanfarin ár hefur hulið stóran hluta andlits hans. Um helgina sendi Pétur frá sér nýtt lag og myndband sem fólk gapir yfir. Hann þykir sýna mikið hugrekki þar sem hann rakar af sér allt hárið og skeggið í myndbandinu og þar kemur fram nýr maður, eða svo gott sem. Við heyrum í Pétri um myndbandið, lagið Andað og þessa djörfu ákvörðun.
Ísland mætir Marokkó á HM karla í handbolta í Egyptalandi á eftir. Ísland tapaði fyrsta leiknum gegn Portúgal en sigrraði Alsír með yfirburðum 39-24. Við ætlum að heyra viðtöl sem Einar Örn Jónsson, okkar maður á HM, tók í gær við leikmenn íslenska liðsins.
15. janúar
Flutt 15.01.2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra gaf í dag út reglugerð sem skyldar alla sem koma til landsins í tvöfalda skimun með fimm daga sóttkví á milli. Þetta er samkvæmt tillögum Þórólfs sóttvarnarlæknis við heyrum í honum hér rétt á eftir.
Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum, 20. janúar nk. Sex verkefni eru tilnefnd og eitt þeirra er Óróasjáin sem er ný forritseining fyrir Jarðskjálftakerfi. Kristín Jónsdóttir náttúrvársérfræðingur Veðurstofunnar er leiðbeinandi verkefnisins hún kemur á eftir og segir okkur frá Óróasjánni.
Á sunnudag hefst önnur þáttaröðin í seríunni Fyrir alla muni - Annar umsjónarmannanna Viktoría Hermannsdóttir kemur og segir frá
Oddrún Lilja Jónsdóttir er 28 ára gamall djassgítarleikari sem býr og starfar í Noregi og platan hennar Marble var á dögunum tilnefnd sem ein af bestu Jazzplötum ársins þar í landi. Við heyrum í Oddrúnu á eftir
Skíðasvæði Hlíðarfjalls opnaði í dag. Gígja Hólmgeirsdóttir skellti sér í Fjallið og spjallaði við Finn Dúa, svæðisstjóra í Hlíðarfjalli, og tók líka nokkra gesti Hlíðarfjalls tali.
14. janúar
Flutt 14.01.2021
Mikið hefur verið rætt og ritað um áhrif D- vítamíns á heilsu okkar og í morgunblaðiðinu í dag er fjallað um grein sem birtist í bandaríska læknatímaritinu Lancet um áhrif D-vítamíns á Covid -19 sjúkdóminn og hvort það geti verið að inntaka D-vítamíns geti hjálpað fólki í baráttunni við sjúkdóminn. Við heyrum í Hannesi Hrafnkelssyni heimilislækni sem hefur kynnt sér þessi mál vel.
Gunnar Lárus Hjálmarsson eða Dr.Gunni hefur verið iðinn við að skrásetja íslenska tónlistarsögu undanfarin ár. Nú eru Kínverjar farnir að teyja sig í viskubrunn Dr.Gunna því að nú er bók eftir hann komin út í Kína. Ógjörningur er að fara með titil bókarinnar á kínversku en á íslensku heitir hún Dægurtónlist frá landi elds og ísa. Andri Freyr hitti Dr.Gunna og skoðaði bókina.
Í morgun var greint frá því að sjúkrahúsið á Ísafirði hefði verið fært á hættustig vegna kórónuveirusmitsins sem greindist á Landspítalanum í gær. Smitaði sjúklingurinn sem liggur á spítalanum í Reykjavík hefur á síðustu dögum notið þjónustu á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Við ræðum við Gylfa Ólafsson forstöðumann heilbrigðisstofnunar Vestfjarða í þættinum.
Sigurgeir Sigmundsson yfirlögregluþjónn flugstöðvardeildar Lögreglustjórans á Suðurnesjum var gestur á upplýsingafundi Almannavarna fyrr í dag og skýrði frá mörgu áhugaverðu. Meðal annars að þegar heimkomusmitgát hefði verið í gildi hefðu verið dæmi um að fólk hefði reynt að smygla sér til landsins frá löndum þar sem mikið var um smit og komast hjá sóttkví með því að koma hingað í gegnum örugg lönd. Síðan í júní hefði tekist að koma í veg fyrir að um 600 smit bærust á þennan hátt inn í landið. Hann sagði að oft á tíðum væri erfitt að fá fólk til að fara í skimun og nefndi ýmis dæmi. Við ætlum að heyra það sem hann hafði að segja á fundinum.
Íslenska karlalandsliðið í handbolta mætir Portúgal í fyrsta leik okkar manna á HM í Egyptalandi. Þar er Einar Örn Jónsson íþróttafréttamaður og við ætlum að heyra viðtöl sem hann tók við leikmenn og þjálfara.
En við byrjum á alvarlegri árás sem var gerð í Borgarholtsskóla í gær. Einn piltur var í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í gæsluvarðhald til 21. janúar vegna rannsóknar lögreglunnar. Tveir aðrir piltar sem einnig voru handteknir vegna málsins eru lausir úr haldi. Samband íslenskra framhaldsskólanema harmar atvikið í yfirlýsingu í dag. Júlíus Viggó Ólafsson forseti SÍF er í símanum.
13. janúar
Flutt 13.01.2021
Alvarleg árás var gerð í Borgarholtsskóla fyrr í dag þegar þrír menn vopnaðir hnífum og kylfum ruddust inn í skólann og veittust að nemendum og starfsfólki. Sex voru fluttir burt í sjúkrabílum og eru ekki taldir alvarlega slasaðir. Fjölmennt lið lögreglu auk sérsveitar ríkislögreglustjóra var kallað út og nemendur sendir heim. Við ætlum að heyra viðtöl fréttastofunnar við nemanda í Borgarholtsskóla sem varð vitni að árásunum og Ársæl Guðmundsson skólameistara.
Þingmenn í Washington ræða nú hvort ákæra eigi Donald Trump Bandaríkjaforseta til embættismissis fyrir hans þátt í því að hvetja til mótmælanna í þinghúsinu í síðustu viku, þegar hópur stuðningsmanna forsetans ruddist inn í þinghúsið með þeim afleiðingum að 5 létust. Það var þrýst á Mike Pence varaforseta að virkja 25 viðauka stjórnarskrárinnar sem hefði orðið til þess að forsetinn þyrfti að víkja - það varð ekki og nú er beðið eftir niðurstöðu atkvæðagreiðslu um ákæru. Þá yrði Donald Trump fyrsti forsetinn í sögunni til að vera ákærður tvisvar af þinginu. Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður
Fegurðardrottningin Linda Pétursdóttir hefur komið víða við frá því hún sigraði ungfrú heim með yfirburðum árið 1988. Nýjasta framtak Lindu eru hennar eigin hlaðvarpsþættir sem heita Lífið með Lindu. Í þeim veitir hún ráð varðandi andlega og líkamlega heilsu. Við heyrum í Lindu til að forvitnast nánar um þættina.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi vilja að fólk borði meiri fisk. Það kemur svosem ekki á óvart, en samkvæmt könnun sem samtökin létu gera vilja Íslendingar gjarnan borða meiri fisk. Þessvegna ætla samtökin að hefja átak til að koma fisk í mannskapinn. Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Hafberg Þórisson garðyrkjubóndi hefur verið lengi í bransanum eins og hann segir sjálfur. Hann hefur rekið gróðrastöðina Lambhaga í Reykjavík í fjöldamörg ár en nú hefur hann reist 7.000 fermetra stálgrindarhús undir salatrækt að Lundi í Mosfellsdal. Þar stefnir hann á enn frekari stækkun og mikla sjálfvirkni enda er ræktunarhlutinn á tveimur hæðum. Hrafnhildur fór í heimsókn í Mosfellsdalinn.
Nú eru sex dimmustu vikur vetrar að baki og sólin rísa á ný. Hómvíkingar fagna rísandi sólu og vaxandi ljósi með söng, kveðskap, sögum, spjalli og almennu æðruleysi. Allt þetta á að sameyna á hátíð sem heitir Vetrarsól, Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur og ein af skipuleggjendum veit meira um málið.
12. janúar
Flutt 12.01.2021
Tveir greindust innanlands í gær með kórónuveiruna sem veldur Covid 19 sjúkdóminum og fimmtán á landamærunum.Thor Aspelund prófessor í líftölfræði ætlar að koma til okkar á eftir og ræða aðeins við okkur um ganginn í faraldrinum hér og erlendis og við hverju má búast á næstunni.
Skátarnir standa fyrir umsvifamikilli söfnun á tómum dósum og flöskum og gefa þeim nýtt líf og frelsi. Þetta er stór þáttur í starfsemi skátahreyfingarinnar. Hrafnhildur hitti Júlíus Aðalsteinsson rekstarstjóra Grænna skáta í endurvinnslunni í Hraunbæ og spurði út í starfsemina.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun drög að stefnu um meðhöndlun úrgangs 2021-2032. Markmiðið er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs, vinna að kolefnishlutleysi Íslands og að auka endurvinnslu og aðra endurnýtingu, draga úr urðun og hætta urðun lífbrjótanlegs úrgangs. Þetta er svo hugsað sem liður í því að þoka Íslandi í áttina að því sem er kallað "hringrásarhagkerfi." Við ræðum þessi mál við ráðherrann á eftir.
Á fimmtudaginn mætir íslenska karla landsliðið Portúgölum í sínum fyrsta leik á HM í Egyptalandi. Okkar maður í sportinu, Einar Örn Jónsson er kominn til Egyptalands og var skikkaður í sóttkví um leið. Við heyrum í Einari og fáum að heyra hvernig hann hefur það og einnig hvað sé að frétta af bandaríska handboltalandsliðinu, en þar eru hvorki meira né minna en átján leikmenn með kórónuveiruna.
ADHD samtökin fagna því mjög að á þessu ári verður ADHD og/eða lyfjanotkun skv. læknisráði vegna ADHD ekki útilokandi þáttur í umsóknarferli til starfsnáms í lögreglufræðum. Samtökin höfðu áður gagnrýnt harðlega að fólk með ADHD væri útilokað frá náminu. Elín H. Hinriksdóttir formaður samtakanna verður á línunni.
Í síðustu viku fengum við gott ráð um hvernig væri hægt að losa sig við jólatréið. En í dag heyrðum við af skepnum sem gera það fyrir þig. Geiturnar hennar Jóhönnu Þorvaldsdóttur geitabónda á Háafelli í Hvítárssíðu spæna tréin í sig með bestu lyst.
11. janúar
Flutt 11.01.2021
Eftir 10 daga eða svo verður seinni skammturinn af bóluefninu frá Pfizer, sem var fyrst gefið um síðustu mánaðamót, gefinn. Fleiri skammtar eru á leiðinni frá Pfizer en á morgun mun bóluefni Moderna berast og verða gefið frá og með miðvikudeginum. Við ætlum að tala við Sigríði Dóru Magnúsdóttur framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilsugæslunni sem hefur umsjón með bólusetningunum.
Gylfi Þór Þorsteinsson forstöðumaður sóttvarnahúsanna verður á línunni hjá okkur. Húsið við Rauðarárstíg er fullt og því þarf að opna fleiri. Hann segir okkur betur frá því og hugmyndum um að fólk sem kýs fremur sóttkví í tvær vikur en sýnatöku á landamærunum muni þurfa að vera í sóttvarnahúsi á meðan.
Við ætlum að heyra í Jónasi Guðmundssyni hjá Landsbjörg um hvað ber að varast þegar fólk leggur á fjöll sérstaklega á þessum árstíma þegar allt er gaddfreðið og ísing og hálka getur valdið alvarlegum slysum.
Demókratar á Bandaríkjaþingi vilja að Trump víki. Þrjár leiðir hafa verið nefndar til þess; Forsetinn segi af sér, Mike Pence virki 25. viðaukagrein stjórnarskrárinnar og taki sjálfur við sem forseti, eða þingið ákæri forsetann til embættismissis öðru sinni. Ástæðan er atburðirnir í þinghúsinu í síðustu viku þegar stuðningsmenn Trumps ruddust inn í þinghúsið þar sem fimm létust í látunum. Kristján Guy Burgess alþjóðastjórnmálafræðingur ætlar að rýna í stöðuna í Bandaríkjunum.
Ísland sigraði Portúgal, 32-23 í undankeppni EM 2022 í handbolta karla í gær en liðin mætast aftur á miðvikudag, en þá á HM í Egyptalandi. Einar Örn Jónsson íþróttafréttamaður talaði við Guðmund Guðmundsson þjálfara eftir leikinn í gær. Við heyrum hvað hann hafði að segja.
8. janúar
Flutt 08.01.2021
Slökkvilið var kallað út snemma í morgun vegna bruna í úrgangi á urðunarstað Sorpu í Álfsnesi. Þar brann meðal annars dekkjakurl og fleira. Við heimsóttum Álfsnes áðan og spjölluðum við Eið Guðmundsson staðarstjóra þar.
Líklega hefur almenningu sjaldan eða aldrei verið jafn meðvitaður um bóluefni, hvað þau heita, hvenær þau koma og hvernig þau virka - eða hvað ? Vitum við kannski lítið sem ekki neitt. Ágúst Kvaran prófessor í efnafræði kemur til okkar á eftir og ræðir bóluefni á mannamáli.
Kamilla Einarsdóttir rithöfundur er komin í Stykkishólm og freistar þess að byrja á nýrri bók. Það er áhugavert að fylgjast með ferðalaginu og í gær fékk hún að vita að hún fengi rithöfundarlaun og það í fyrsta skipti. Við hringjum vestur í Stykkishólm og heyrum í Kamillu.
Samkvæmt tillögum frá sóttvarnarlækni stendur til að rýmka reglur eftir helgina. Líkamsræktarstöðvum verðu þá gert kleypt að opna með vissum skilyrðum . Við heyrum í Gurrý á YAMA og spyrjum út í fyrirhugaða opnun og hvernig við eigum að peppa okkur áfram svona í upphafi árs.
En við byrjum á að aðstoða hlustendur. Þættinum barst bréf frá hlustenda á höfuðborgarsvæðinu sem "svaf yfir sig" með að losa sig við jólatréið. Viðkomandi leitar ráða og við settum okkur í samband við Bjarna Brynjólfsson hjá Reykjavíkurborg sem lumar á góðum ráðum.
7. janúar
Flutt 07.01.2021
Það fór í gang ótrúleg atburðarás í gær þegar stuðningfólk Donalds Trump Bandaríkjaforseta ruddist inn í þinghúsið þegar staðfesting þingsins á kjöri nýs forseta stóð yfir. Fjórir dóu í þessum látum. Uppákoman hefur verið fordæmd af ráðamönnum um allan heim. Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði og Birna Anna Björnsdóttir rithöfundur ætla að ræða þetta mál betur við okkur.
Við ætlum einnig að ræða vináttu. Þáttaröðin Vinátta sem verður sýnd í Sjónvarpi símans er víst stútfull af fróðleik, skemmtun, ást, hversdagsleika, sérfræðingum og einstökum vinasamböndum. Þáttaröðin er hugarfóstur Kristborgar Bóelar og Álfheiðar Mörtu. Kristborg segir okkur betur frá Vináttu.
Sala á áfengi hefur aukist nokkuð í faraldrinum. Krabbameinsfélagið vill benda á heilsufarslegar afleiðingar áfengisneyslu. Sigrún Elva Einarsdóttir, lýðheilsufræðingur og sérfræðingur í forvörnum og fræðslu hjá Krabbameinsfélaginu.
Í dag birtist vísindagrein í tímaritinu Nature Genetics þar sem er fjallað um rannsóknir vísindamanna Íslenskrar erfðagreiningar á eineggja tvíburum. Og það er margt afar áhugavert sem kemur fram þar. Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir okkur allt um það.
Áramótin eru afstaðin og þá vilja margir taka sig á í heilsu og mataræði.Fiskurinn kemur þá sterkur inn en hvernig er það með okkur? Erum við enn að borða soðna ýsu og hrogn og lifur? Hrafnhildur kíkti í fiskbúðina hans Fúsa fyrrum handboltakappa og spurði út í fiskneyslu og auðvitað handbolta.
6.janúar
Flutt 06.01.2021
Nú á tímum Covid 19 hafa samkomutakmarkanir haft það í för með sér að streymt er frá útförum í kirkjum landsins. Margir telja það vera til bóta að koma til móts við vini og ástvini en sumir telja ljóst að umræðu skorti um hvernig þessum málum skuli háttað. Við ætlum að ræða þessi mál við Guðrúnu Karls- og Helgudóttur prest í Grafarvogskirkju.
Eygló Harðardóttir kemur til okkar á eftir en hún stýrir aðgerðarteymi gegn ofbeldi, ásamt Sigríði Björk Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra. Meðal þess sem teymið kom á laggirnar er sameiginleg rafræn gátt á 112.is, fyrir þolendur, gerendur og aðstandendur. Og nú hefur efni gáttarinnar verið þýtt á ensku og pólsku.
Það lítur út fyrir að demókratar hafi tryggt sér bæði sætin í bandarísku öldungadeildinni sem kosið var um í Georgíuríki í gær. Það eru góðar fréttir fyrir nýjan forseta - Joe Biden. Á sama tíma reynir Trump forseti til þrautar að fá úrslitum kosninganna hnekkt - með engum árangri. Símtal hans og innanríkisráðherra Georgíuríkis vakti mikla athygli en þar biður Trump ráðherrann að „finna“ nógu mörg atkvæði til þess að úrslit forsetakosninganna í ríkinu yrðu honum sjálfum í hag. Kristján Guy Burgess alþjóðastjórnmálafræðingur ætlar að fara yfir þessi mál með okkur á eftir.
Það er oftast mikið um dýrðir í Vestmannaeyjum á þrettándanum og mikil hátíðarhöld. En þrettándinn nú verður á lágstemmdum nótum. Við sláum á þráðinn til Írísar Róbertsdóttur bæjarstjóra í Eyjum og heyrum hvernig stemningin er þar.
Karlalandslið Íslands í handbolta mætir Portúgal í kvöld án fyrirliðans Arons Pálmarssonar sem er meiddur. Arnór Þór Gunnarsson ber fyrirliðabandið í hans stað í kvöld. Einar Örn Jónsson ætlar aðeins að hita upp fyrir leikinn og segja okkur frá HM sem hefst í Egyptalandi í næstu viku.
En við byrjum á deginum í dag en það er einmitt þrettándinn og þá nota margir tækifærið og kveðja jólin með stæl og sprengja síðustu sprengjurnar og kveikja á síðustu blysunum. Það eru ákveðnar reglur í gangi og til að fara betur yfir þær með okkur er Þorsteinn Jóhannsson sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun á línunni.
5. janúar
Flutt 05.01.2021
Nú eru líkur til þess að bólefni Moderna gegn covid 19 verði samþykkt af lyfjastofnun Evrópu á morgun og fái þá markaðsleyfi hér á landi á fimmtudag. Í framhaldinu hefst svo bólusetning - þegar bóluefnið berst til Íslands. Ingileif Jónsdóttir prófessor í ónæmisfræði ætlar að segja okkur allt um þetta bóluefni.
Það má segja að gönguskíðaæði hafi gripið um sig á Íslandi fyrir nokkrum árum og nú er nýjasta æðið utanbrautarskíði. Haraldur Örn Ólafsson og Þóra Tómasdóttir ætla að boða okkur fagnaðarerindi utanbrautargönguskíðanna á eftir.
Í vikunni var úthlutað styrkjum úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra fyrir árið 2021. Þar eru fjölmörg áhugaverð verkefni, og eitt þeirra er verkefni þar sem leitast er við að nýta ærkjöt betur. Til að forvitnast um það verkefni þá mun Gígja Hólmgeirsdóttir hringja í Skagafjörðinn og spjalla við Þröst Heiðar Erlingsson, bónda í Birkihlíð.
Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, kynnti í dag hertar aðgerðir í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. Bretar ekki fara út úr húsi að nauðsynjalausu og Johnson segir að næstu vikur verði þær erfiðustu í baráttunni við faraldurinn til þessa, en þar fjölgar greindum smitum nú á ógnarhraða. Útgöngubann tekur gildi á miðnætti en þetta eru hörðustu sóttvarnaaðgerðir sem gripið er til síðan í mars í fyrra. Gert er ráð fyrir að útgöngubann verði í gildi fram í miðjan febrúar. Við heyrum í Sigurði Sverrissyni sem býr og starfar í Liverpool.
Í nótt og í morgun gaus sement upp úr einum af fjórum sementstönkum við höfnina á Akranesi. Slökkviliðið hefur staðið í ströngu í allan dag við að hreinsa bæinn. Við heyrum í Jens Heiðari Ragnarssini slökkviliðsstjóra á Akranesi.
4. janúar
Flutt 04.01.2021
Tíu greindust með kórónuveiruna í gær og þar af voru sjö í sóttkví. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagðist á upplýsingafundinum fyrr í dag vonast til þess að lokakaflinn í baráttunni gegn veirunni væri hafinn nú þegar byrjað væri að bólusetja. Hann sagðist líka halda að við ættum að geta vonast eftir því að jafnvel munum við fá bóluefni fyrr en talið hefur verið til þessa, eins og hann orðaði það. Við ætlum að heyra í Þórólfi á eftir.
Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Bifröst Foods fékk gullverðlaun á verðlaunahátíðinni London Design Awards fyrir umbúðarhönnun á snakkpokum fyrirtækisins. Það má þar með segja að Bifröst foods hafi unnið fegurðasamkeppni umbúða sem verður að teljast nokkuð gott. Rúnar Ómarsson forsvarsmaður Bifröst foods kemur til okkar með snakkpokana fögru.
Um áramót gekk í gildi bann við afhendingu plastburðarpoka í verslunum. Áður hafði verið bannað að afhenda plastpoka án endurgjalds - en frá og með 1. janúar er óheimilt fyrir verslanir að afhenda burðarpoka úr plasti. Ekki skiptir máli hvort það er með eða án gjalds. Andrés Magnússon framkvæmdastjóri samtaka verslunar og þjónustu ætlar að spjalla við okkur um þetta.
Skemmtanahald hefur sannarlega breyst á undanförnu ári og eru t.d. tónleikar um streymi sjálfsagður viðburður. Sama má segja um spurningakeppnir, afmæli, skírnir og jafnvel brúðkaup. Nú styttist í þorrann og nú þegar er farið að auglýsa þorrablót í streymi. Skagamenn ætla að vera með sitt blót í beinu streymi. Ísólfur Haraldsson er í skemmtinefndinni.
Gettu betur byrjar í kvöld á Rás 2. Og það eru nýir stjórar í brúnni - Jóhann Alfreð Kristinsson og Laufey Haraldsdóttir.
30. desember
Flutt 30.12.2020
Matvælastofnun biður eigendur dýra að huga sérstaklega vel að þeim u áramót þar sem mörg dýr geta fyllst ofsahræðslu þegar flugeldarnir fara að springa með tilheyrandi hávaða og ljósadýrð. Hundar og kettir eru oft lamaðir af hræðslu og sumir strjúka og mörg dæmi eru um hestar taki á rás út úr girðingum og hlaupi jafnvel í veg fyrir bíla. Þóra Jónasdóttir dýralæknir hjá Matvælastofnun verður á línunni.
Við forvitnumst um tvo fasta liði á áramótadagskrá RÚV; fréttaannálinn sem fréttamennirnir Bjarni Pétur Jónsson og Valgeir Örn Ragnarsson ætla að segja okkur frá og svo er það Áramótaskaupið sem Reynir Lyngdal leikstjóri ætlar að segja okkur frá ásamt Þorsteini Guðmundssyni, sem er einn höfunda skaupsins - og það alls ekki í fyrsta skipti.
Við fáum að vita allt um áramótaveðrið. Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur.
Við opnum líka símann og biðjum ykkur hlustendur um að velja manneskju ársins 2020.
En við byrjum á Seyðisfirði þar sem miklar náttúruhamfarir urðu skömmu fyrir jól með þeim afleiðingum að fjöldi húsa eyðilagðist og rýma þurfti allan bæinn. Það hefur því mikið mætt á björgunarsveitinni Ísólfi á Seyðisfirði. Sveinn Engilbert Óskarsson björgunarsveitarmaður verður í símanum.
29.des
Flutt 29.12.2020
Bólusetning gegn Covid 19 er hafin og nú keppast heilbrigðisstarfsmenn við að bólusetja sem flesta. Faraldurinn hófst í febrúar hér á landi og eflaust hefur landlækni ekki órað fyrir að þessi dagur myndi renna upp 10 mánuðum seinna - að bóluefni væri komið í almenna dreifingu. Alma Möller verður gestur okkar á eftir.
Hvernig virkar bóluefnið frá Pfizer? Og afhverju virkar það gegn Covid 19? Ágúst Kvaran prófessor í eðlisefnafræði fer yfir það.
Á gamlárskvöld verður í fyrsta skipti haldinn áramótafagnaður á RÚV í nýrri vídd með sýndarverum. Jakob Frímann Magnússon er einn af aðalframleiðendur þessa viðburðar. Þeir útskýra málið.
Ingófur Þórarinsson, Ingó Veðurguð, hefur verið á fullu á árinu. Átt stóra smelli og skemmt landanum í þáttunum Í kvöld er gigg á Stöð 2. Hann kíkir í heimsókn.
Manneskja ársins - við opnum fyrir símann.
28.desember
Flutt 28.12.2020
Það var stór stund í morgun þegar fyrstu skammtarnir af bóluefninu frá Pfizer og BioNtech bárust til landsins og ekkert því til fyrirstöðu að hefja bólusetningar strax í fyrramálið. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði þetta mikinn gleðidag í baráttunni við COVID-19. Hún hefði verið löng og ströng en nú væri nýr kafli að hefjast. Með komu bóluefnisins hylli undir að við getum snúið baráttunni okkur í hag. Hann verður á línunni.
Fréttir af því að fjármálaráðherra hefði brotið sóttvarnalög í Ásmundarsal á Þorláksmessu vöktu mikla athygli og margir kölluðu eftir afsögn ráðherrans. Nú er reyndar eitthvað málum blandið hvort það hafi verið of margir inni í Ásmundarsal á Þorláksmessu, þó grímunotkun og fjarlægðarmörk hafi líklega ekki verið virt, samkvæmt upplýsingum frá eigendum Ásmundarsalar. Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði veltir fyrir sér ástæðum til afsagnar á Facebook í dag og áhrifum á ríkisstjórnina og rifjar upp fyrri afsagnir. Hann ætlar að pæla í þessu með okkur á eftir.
Skíðafólk um allt land er margt orðið óþreyjufullt að komast í brekkurnar. Við tökum stöðuna í Hlíðarfjalli á Akureyri þar sem Gígja Hólmgeirsdóttir spjallar við Brynjar Helga Ásgeirsson, forstöðumann Hlíðarfjalls.
Mjög stór tölvuárás var gert á ýmsar stofnanir í Bandaríkjunum rétt fyrir jól og kom hún í kjölfar stórra tölvuárása á lyfjafyrirtækin sem eru að þróa og framleiða bóluefnin gegn Covid 19. Anton M. Egilsson yfirmaður öryggismála hjá Origo segir okkur frá umfangi árásanna og hverjar helstu hætturnar eru ekki síst hjá lyfjafyrirtækjunum sem eru í brennideplinum þessa dagana.
Við opnum líka símann á eftir og tökum við atkvæðum hlustenda í vali á manneskju ársins. Nú standa tíu eftir - förum betur yfir hverjir það eru á eftir.
Tilkomumikil glitský blöstu við á himni í morgun suðvestan og vestantil á landinu. Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur og sérfræðingur í skýjafari ætlar að segja okkur hvaða fyrirbæri þetta er.
23. desember
Flutt 23.12.2020
Matvælastofnun villa minna fólk á að huga sérstaklega að hreinlæti þegar kemur að meðferð á hátíðarmatnum til að forðast sýkingar - nóg er nú samt á þessum skrítnu tímum. Við ætlum að fá nokkur hollráð frá Dóru S. Gunnarsdóttur, sviðsstjóra Neytendaverndar hjá Matvælastofnun.
Það hefur verið mikið að gera í sýnatökum hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í dag og Óskar Reykdalsson forstjóri ætlar að segja okkur hvernig er búið ganga og hvernig gengur að undirbúa stórfelldar bólusetningar.
Ragnhildur Freysteinsdóttir hjá Skógræktarfélagi Íslands ætlar að segja okkur frá tískustraumum í jólatrám.
Í mörgum löndum er mkið rætt um hraðpróf fyrir Covid-19 og þróun þeirra en minna hér á landi. Hvernig stendur á því og hver er staðan með þessi próf? Hefur þróun þeirra sýnt fram á að þau virki 100%?. Erna Magnúsdóttir dóent við læknadeild HÍ svarar því.
Við opnum líka símann 5687 123 og tökum við tilnefningum í vali Rásar 2 á manneskju ársins.
En það er Þorláksmessa og þó að margar hefðir þurfi undan að láta vegna faraldursins, eins og friðargangan og fjölmennar skötuveislur, þá er ein hefð sem ekkert fær raskað - það eru Þorláksmessutónleikar Bubba Morthens sem verðir sendir út frá Hörpu í kvöld. Bubbi verður á línunni.
22. desember
Flutt 22.12.2020
Bretum hefur ekki gengið eins vel og vonir stóðu til við að hemja kórónuveirufaraldurinn og fyrirætlanir um tilslakanir yfir hátíðarnar breyttust í enn harðari reglur. Og nú dreifir nýtt afbrigði veirunnar sér hratt þar í landi. Víða er ferðabann á fólk frá Bretlandi og Frakkar gengu lengra og bönnuðu vöruflutninga þaðan. Langar bílalestir hafa myndast þar sem vöruflutningabílar sitja fastir. Við heyrum í sendiherra Íslands í London, Sturlu Sigurjónssyni.
Og meira um þetta nýja veiruafbrigði sem er sagt smita mun meira en fyrri afbrigði - við ætlum að tala við Arnar Pálsson erfðafræðing um hvaða fyrirbæri þetta er. Má kannski búast við enn fleiri afbrigðum?
Og svo er það Þorláksmessuskatan - við tökum smá forskot á morgundaginn og kíkjum í heimsókn í hesthúsahverfið Sprett í Kópavogi en þar var fjölskylda ein að sjóða skötu við hesthúsið og fjölskylduboðið var mun fámennara en undanfarin ár.
Samhjálp gefur daglega um 200 máltíðir til þeirra sem á þurfa að halda. Og nú þegar styttist í jólin er verið að undirbúa hátíðarmatinn. Samtökin hvetja fólk til að aðstoða samtökin á þessum skrítnu tímum og gefa andvirði einnar eða fleiri máltíða. Valdimar Þór Svavarsson framkvæmdastjóri Samhjálpar ætlar að vera á línunni.
Rás 2 velur nú manneskju ársins 2020. Við ætlum að opna símann 5687 123 á eftir og taka við tilnefningum frá ykkur hlustendum.
21.desember
Flutt 21.12.2020
Nú er ljóst að bóluefni Pfizer og BioNTech gegn COVID-19 fær markaðsleyfi hér á landi fyrir jól. Lyfjastofnun Evrópu heimilaði í dag notkun bóluefnis gegn kórónuveirunni í löndum Evrópska efnahagssvæðisins og fyrstu skammtarnir koma hingað eftir viku. Það styttist því í að langþráð bólusetning hefjist. Á sama tíma heyrum við fréttir af nýju afbrigði kórónuveirunnar í Englandi sem er talið enn meira smitandi og nú lokar hvert landið á fætur öðru á fólksflutninga frá Englandi. Svo eru blikur á lofti hér á landi því smit virðast hafa tekið kipp eftir að aðeins var slakað á sóttvörnum og fólk er meira á ferðinni í aðdraganda jólanna. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir leggur mat á stöðuna á eftir.
Í dag eru einhverjir íbúar á rýmingarsvæðunum á Seyðisfirði að snúa heim og vonast er til að flestir fái að fara heim fyrir jól. Enn er verið að meta aðstæður og þótt ástandið hafi skánað mikið eftir að regninu slotaði ríkir enn mikil óvissa um framhaldið. Ein þeirra sem hefur snúið heim á ný er Þóra Guðmundsdóttir arkitekt. Við heyrum í henni
Þórir Hergeirsson stýrði landsliði Noregs sem varð Evrópumeistari kvenna í handbolta eftir sigur á Frakklandi í úrslitaleik í gærkvöld, 22-20. Þar með unnu Norðmenn Evrópumótið í áttunda sinn. Í fjögur síðustu skipti sem Noregur hefur unnið gullið á EM hefur Þórir verið aðalþjálfari liðsins. Hann hafði reyndar verið aðstoðarþjálfari áður og var því líka í þjálfarateyminu þegar Norðmenn unnu EM 2004, 2006 og 2008. Við heyum viðtal Þorkels Gunnars Sigurbjörnssonar við Þóri.
Það er að mörgu að huga þegar líður að jólum. Matvælastofnun vekur athygli á ýmsu sem þarf að hafa í huga ef það eru gæludýr á heimilinu; jólaseríur, skreytingar með kertum og blómum, jólamatur og sælgæti eru meðal þess sem þarf að pass upp að að gæludýrin komist ekki í. Þóra Jónasdóttir, dýralæknir gæludýra og dýravelferðar hjá Matvælastofnun segir okkur meira.
Við heyrum líka viðtal við Víði Reynisson yfirlögregluþjón. Hann er mættur til vinnu eftir erfið veikindi.
En það er mikill hátíðisdagur í dag. Það eru nefnilega 90 ár frá stofnun Ríkisútvarpsins. Því hefur verið rækilega fagnað á Rás 1 í allan dag. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri sest hjá okkur í tilefni dagsins.
18. desember
Flutt 18.12.2020
Í þættinum bárust okkur þær fréttir að verið væri að rýma Seyðisfjörð vegna aurskriðna. Við hringdum í Hildi Þórisdóttur fyrrverandi forseta bæjarstjórnar á Seyðisfirði sem sagði okkur meðal annars að bærinn væri rústir einar.
Kosning á manneskju ársins á Rás 2 hefst með hátíðlegri athöfn hér í Síðdegisútvarpinu á eftir þegar dagskrástjórinn Baldvin Þór Bergsson kemur og ræsir kosninguna formlega. Þátturinn mun litast svolítið af kosningunum þar sem opnað verður fyrir símann og hlustendum gefinn kostur á að greiða sín atkvæði.
Ólafur Þórarinsson, öllu tónlistaráhugafólki kunnur sem Labbi í Mánum er löngu landsþekktur lagahöfundur og söngvari. Labbi í Mánum, var að gefa út bók um feril sinn í hinum ýmsu hljómsveitum, þar á meðal Mánum, Kaktusi og Karma. Einnig var að koma út nótnabók með lögum hans og textum. Þar að auki var hann að gefa út plötu með nýjum lögum. Labbi gefur sér tíma til að koma í Síðdegisútvarpið á eftir.
Við fjöllum einnig um kvennaskák þar sem skák hefur verið Síðdegisútvarpinu ofarlega í huga unanfarið. Það sama má segja um þjóðina end njóta þættirnir Queen?s Gambit gríðarlegrar vinsældar. Um helgina fer fram evrópumót taflfélaga í kvennaflokki. Tvö íslensk skákfélög, Skákfélagið Huginn og Skákdeild Fjölnis taka þátt í mótinu en alls eru þátttökuliðin 42. Jóhanna Björg varaforseti Skáksambands Íslands verður á línunni.
En við byrjum á John Snorra sem keppist nú við að vera fyrstur manna til að klífa K2 að vetralagi. Við heyrum í John sem nú er staddur í grunnbúðunum við rætur fjallsins.
17. desember
Flutt 17.12.2020
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist búast við því að hjarðónæmi í samfélaginu náist ekki fyrr en um mitt næsta ár, jafnvel síðar. Hæg afhending á bóluefni og minna magn en áætlað var valdi því að stokka þurfi upp forgangsröðun hópa fyrir bólusetningu. Hann fór rækilega yfir þetta á upplýsingafundi fyrr í dag. Við heyrum það.
Áhöfninni á togveiðiskipinu Pálínu Þórunni brá heldur betur í brún í gær þegar tundurdufl kom í veiðafærin þegar skipið var við veiðar út frá Sandgerði. Það kom til hafnar á sjöunda tímanum í gærkvöldi og losaði sig við tundurduflið með dyggri aðstoð sérfræðinga Landhelgisgæslunnar. Við ræðum við skipstjórann Snorra Snorrason sem aftur er kominn út á haf á Pálínu Þórunni.
Það sem af er þessu ári af orðið meira en 200 brunar og í fjórum af þessum brunum hefur fólk látið lífið. Nú er í fullum gangi landsátak Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um brunavarnir - Eldklár, þar sem brýnt er fyrir fólki að vera með brunavarnirnar í lagi - ekki síst núna fyrir jólin. Eyrún Viktorsdóttir er forvarnafulltrúi HMS.
Sólrún Diego hefur getið sér gott orð fyrir skilvirkar og skemmtilegar aðferðir við skipulag. Svo flink er Sólrún í þessu hún skrifaðu nýlega bókina Skipulag sem nýtur gríðarlegrar vinsælda. Í bókinni kemur hún víða við og fjallar um allt sem snýr að eigin skipulagi, fjölskyldunnar og heimilisins. Sólrún kemur til okkar á eftir til að ræða Skipulag.
Jólamarkaðir þetta árið eru misjafnir. Einn af þeim er jólamarkaður Hulla og Þrándar. Á þeim markaði sitja þeir félagar sveittir þar sem Hugleikur Dagsson teiknar eftir pöntun og Þrándur málar í beinni. Það fer hver að verða síðastur að leggja inn pöntun þar sem markaðinum lýkur í kvöld. Hugleikur segir okkur frá.
16. desember
Flutt 16.12.2020
Hættustigi var lýst yfir á Seyðisfirði eftir að aurskriður féllu í bæinn í gær og óvissustig er á Austurlandi vegna skriðufalla.120 íbúar neyddust til að yfirgefa heimili sín á Seyðisfirði og finna sér annan svefnstað eftir að tvær aurskriður féllu niður í bæinn. Við heyrum í Magna Hreini Jónssyni ofanflóðasérfræðingi á Veðurstofunni.
Út er komin bókin Shooting Rescue, sem er 160 blaðsíðna ljósmyndabók með sögunum á bakvið myndirnar á íslensku og ensku. Síðustu 10 árin hefur hirðljósmyndari Slysavarnafélagsins Landsbjargar, hann Sigurður Ólafur Sigurðsson ljósmyndað björgunarsveitir á æfingum og í útköllum. Sigurður segir okkur betur frá bókinni í þættinum.
Matarprentarinn Foodini minnkar matarsóun og ýtir undir sköpunargleðina í eldhúsinu! Spænska fyrirtækið Natural Machines hefur þróað fyrsta eldhústækið sem þrívíddarprentar matvæli með einföldum hætti: Foodini. Frá þessu er sagt á vef Matís en Matís stýrir verkefninu Future Kitchen, eða eldhús framtíðarinnar, sem birtir reglulega myndbönd þar sem fjallað er um nýjungar í matartækni. Rakel Halldórsdóttir sérfræðingur hjá Matís ætlar að segja okkur betur frá þessu á eftir.
Og við forvitnumst um listagjöf Listahátíðar, því þeir sem vilja senda hressandi jólakveðju til vina og ættingja um allt land, geta nú sent landsþekkt listafólk í heimsókn 19. og 20. desember með örstutta tónleika eða sýningu - í öruggri fjarlægð að sjálfsögðu. Og það kostar ekkert að senda kveðjuna - ríkið splæsir. Vigdís Jakobsdóttir, listrænn stjórnandi verkefnisins ætlar að segja okkur allt um málið.
Íbúar sem þurftu að rýma hús sín á Seyðisfirði og þurfa nauðsynjar voru hvattir til að leita í Sæból, hús björgunarsveitarinnar Ísólfs á Seyðisfirði. Helgi Haraldsson formaður Ísólfs hefur eflaust hefur haft í nógu að snúast á Seyðisfirði síðan í gær. Hann er á línunni.
15. desember
Flutt 15.12.2020
Við sáum fréttir af því að kennarar við danska háskóla hefðu áhyggjur af auknu prófsvindli á þessum skrítnu tímum þegar fleiri og fleiri þurfa að þreyta próf á netinu. Háskólinn á Akureyri hefur mikla og langa reynslu af slíkum prófum og við ætlum að heyra í Bryndísi Ástu Böðvarsdóttur verkefnastjóra prófa og námsmats fyrir norðan.
Það hefur borið talsvert á því að svindlarar séu að senda fólki tölvupósta til að biðja um staðfestinu á sendingum eða öðru slíku. Þessi vandi fer sívaxandi svo það borgar sig að fara varlega þegar kemur að viðskiptum á netinu, Björn Berg Gunnarsson deildarstjóri Greiningar - og fræðslu hjá íslandsbanka fer yfir það með okkur hvernig við getum varið okkur fyrir slíku.
Þorláksmessan er í næstu viku og hvað gerir skötufólk þá ? Við heyrum í veitingarmanninum Stefáni Úlfarssyni á Þremur Frökkum sem hefur eldað skötu ofan í marga síðustu Þorláksmessur en hvað gerir hann í ár ?
Lögreglan á Norðurlandi vestra varaði í gær við miklum tjörublæðingum á vegarkaflanum úr Borgarfirði og norður í land í gær, og bað ökumenn að fara varlega. Að minnsta kosti eitt umferðaróhapp má rekja til þessara aðstæðna, skrifaði lögreglan. Við heyrum í Marín Guðrúnu Hrafnsdóttur sem var á leið úr Húnavatnssýslu og suður þegar hún varð þess vör að bíllinn fór að rása og þegar betur var aðgáð hafði olíudrulla fests á dekkin á bíl hennar svo ekki var við neitt ráðið. Meira um málið á eftir.
Eins og hlustendur Síðdegisútvarpssins hafa heyrt á undanförnum mánuðum þá starfa Lionsklúbbar víða um land og er starfsemin misjöfn. Lionsklúbburinn Harpa í Stykkishólmi er einn þeirra klúbba sem lætur gott af sér leiða fyrir hátíðarnar og aðstoðar þau sem aðstoð þurfa við greniskreytingar. Ekki nóg með það því klúbburinn bíðst einnig til að koma greninu fyrir í kirkjugarðinum í Stykkishólmi og á Helgafelli. Unnur Valdimarsdóttir veit meira um greniskreytingarnar á Stykkishólmi.
14.des
Flutt 14.12.2020
Fólk sem veiktist alvarlega af COVID-19 er í aukinni áhættu á einkennum þunglyndis og áfallastreitu í kjölfar veikindanna og svipaðar vísbendingar eiga við um þau sem hafa verið í sóttkví eða eiga ættingja sem hafa greinst með COVID-19. Þetta sýna frumniðurstöður rannsóknarinnar Líðan þjóðar á tímum COVID-19 sem vísindamenn Háskóla Íslands, Landspítala, Embættis landlæknis og sóttvarnarlæknis standa að. Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands fer betur yfir þessar fyrstu niðurstöður.
Á miðnætti taka gildi mjög strangar reglur vegna faraldursins í Hollandi. Sóley Tómasdóttir í Amsterdam ætlar að segja okkur meira.
Í gær lenti rússnesk flugvél sem notuð hefur verið til herflutninga á Keflavíkurflugvelli með nýtt veirugreiningartæki til notkunar á sýkla - og veirufræðideild LSP. Með tækinu verður hægt að greina allt að fjögur þúsund sýni á sólarhring og tækið kostar um hundrað milljónir króna. Karl Kristinsson yfirmaður sýkla og veirufræðideildar Lansdpítalans kemur til okkar á eftir.
Við ætlum líka að hringja í Sesselíu Birgisdóttur framkvæmdastjóra þjónustu og markaðsmála hjá Póstinum. Það er brjálað að gera hjá Póstinum og einhverjir farnir að pirra sig á því að pakkar séu lengi á leiðinni.
En fyrst ætlum við að forvitnast um tímaritið Landnámshænuna sem var að koma út. Við erum komin í samband við Magnús Ingimarsson, ritstjóra tímaritsins og ritara Eigenda- og ræktendafélags landnámshænsna, sem gefur blaðið út.
11. desember
Flutt 11.12.2020
Þær frábæru fréttir bárust í dag að bóluefnið frá Pfizer kæmi til Íslands um áramótin. Þá er gert ráð fyrir að Lyfjastofnun Evrópu veiti bóluefninu markaðsleyfi ekki síðar en 29. desember. Við heyrum meira um þetta þegar við tölum við Þórólf Guðnason sóttvarnalækni á eftir.
Í gærkvöldi birti Ingvi Hrafn Jónsson vægast sagt hrikalega mynd af sér með sárabindi sem þakti andlit hans. Okkur í Síðdegisútvarpinu brá í brún þegar við sáum myndina eins og líklega flestum. Við heyrum í Ingva Hrafni og gáum hvort ekki sé í lagi með hann.
Það hefur verið töluvert talað um áhrif klórvatns á kórónuveiruna undanfarið í framhaldi af ákvörðun um að opna sundlaugar aftur - frekar en aðra heilsurækt. Ágúst Kvaran prófessor, svarar á Vísindavefnum spurningunni: Getur klór í sundlaugum drepið COVID-veiruna og þá hvernig? Við ætlum að heyra í honum á eftir.
Menningar og frístundarnefnd Hveragerðisbæjar hefur ákveðið að efna til jólaskreytingakeppni á meðal bæjarbúa. Veittar verða viðurkenningar fyrir mest og best skreyttu húsin. Jóhanna Margrét Hjartardóttir, menningar og frístundafulltrúi verður á línunni.
"Ef maður gerir það ekki sjálfur þá gerir það enginn," er eitthvað sem á við um Mývetninga og skíðalyftu þeirra sem nálægt Kröfluvirkjun. Lyftan var sett upp í sjálfboðavinnu í kringum aldamótin en hún hefur verið óstarfhæf í langan tíma. Nú hafa Mývetningar tekið höndum saman og eru að koma lyftunni aftur í stand. Stefán Jakobsson söngvari er einn þeirra sem eyðir frítíma sínum við lyftuna.
10.des
Flutt 10.12.2020
Matvælastefna fyrir Ísland til ársins 2030 hefur verið kynnt. Þar er fjallað um fæðuöryggi, lýðheilsu, sjálfbærni, nýsköpun og margt fleira sem tengist mat og næringu sem snertir okkur öll, því öll þurfum við að borða og öll viljum góðan og heilnæman mat. Vala Pálsdóttir er formaður verkefnisstjórnar um matvælastefnu. Við spjöllum við hana á eftir.
Einar Örn Benediktsson er einn af þeim listamönnum sem ávallt fer ótroðnar slóðir. Þessa dagana er í gangi sýning á myndlistaverkum Einars sem heitir Skilaboð og fer hún fram í skilaboðum fyrir þá sem þau vilja. Einar segir okkur nánar frá þessari aðferð í þættinum.
Síðasta sólahring greindust tæplega 24.000 kórónuveirusmit í Þýskalandi sem er mesti fjöldi á einum degi þar í landi frá upphafi faraldursins. Dánartölur hafa einnig farið hækkandi þar og ástandið á sjúkrahúsum víða í landinu er orðið mjög alvarlegt. Við ætlum að heyra í Maríu Erlu Marelsdóttur sendiherra Íslands í Berlín hér á eftir og spyrja út í aðgerðir sem nú er ráðgert að grípa til í þeirri von að snúa þróunni við.
Svala Jóhannsdóttir og og sambýlismaður hennar Emil Christoffers Bager Holm lentu í þeirri óskemmtilegu reynslu að það var brotist inn til þeirra í gær á meðan þau voru í vinnunni. Öllu var stolið steini léttara og miklar skemmdir unnar en líklega vakti það mesta furðu að meðal þess sem stolið var var óhreinn fatnaður og klósettpappír. Við heyrum í Svölu.
Við ætlum líka að heyra í Álfheiði Erlu Guðmundsdóttur sem er ung söngkona á uppleið og syngur í fyrsta sinn í kvöld einsöng með Sinfoníuhljómsveit Íslands og það í beinni útsendingu í sjóvarpi allara landsmanna ruv
Margir kannast við tilboðið fimm í fötu en færri þekkja sand í fötu. Umhverfissvið Reykjanesbæjar hefur tekið upp á því að bjóða íbúum sand í fötu svo að sem flestir komist leiða sinna án þess að spóla í sama farin eða þá að detta á rassinn. Guðlaugur Sigurjónsson framkvændastjóri umhverfissviðs er á línunni hjá okkur.
9.des
Flutt 09.12.2020
Skilnaður Bretlands og Evrópusambandsins er aftur kominn hressilega á dagskrá því planið er að ljúka samningum fyrir lok árs. Það hefur ekki gengið nógu vel hinsvegar. Boris Johnson forsætisráðherra Breta ætlar að ræða málin yfir kvöldverði með Ursulu von der Leyen forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í kvöld. Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur fylgist grannt með þessu máli. Hann verður á línunni.
Samkvæmt yfirlýsingu frá fulltrúum heilbrigðiseftirlitsins í Bretlandi við BBC í dag eiga þeir sem hafa fengið alvarleg ofnæmisköst eða ofnæmisviðbrögð mögulega að varast bólusetningu með Pfizer-bóluefninu. Tveir heilbrigðisstarfsmenn þar í landi fengu alvarleg ofnæmiseinkenni í gær, stuttu eftir að hafa farið í bólusetningu, en eru á batavegi. Lyfjastofnun Bandaríkjanna hefur staðfest að bóluefnið er með 95 prósenta virkni gegn veirunni. En hvað segir þetta okkur um þetta nýja bóluefni og er þetta vísbending um að einhver hætta sé á ferðum? Við spyrjum Michael Clausen ofnæmislækni út í það.
Við sáum fréttir af því að brasilísk flugfélag hefði hafið flug með Boeing 737 Max þotum - en þotur af þeirri gerð hafa verið kyrrsettar síðan snemma árs 2019 í kjölfar bilunar og alvarlegra flugslysa. Það hefur verið óvissa um framtíð vélanna en nú hefur brasilíska flugfélagið Gol riðið á vaðið og tekið vélarnar í sína þjónustu. Við ætlum að heyra í Kristjáni Sigurjónssyni ritstjóra turisti.is sem er öllum hnútum kunnugur í flugbransanum.
Árni Matthíasson blaðamaður situr við skriftir þessa daga og skrifar sína fyrstu uppskriftabók en byggir á uppskriftum sigurvegara. Um er að ræða uppskriftir kvenna sem búið hafa í kvennaathvarfinu en Árni hefur verið í stjórn Kvennaathvarfsins um nokkurn tíma svo hann þekkir starfsemina vel en ákvað svo að taka saman uppskriftir kvennanna og setja í bók.
Nú þegar tími súkkulaðidagatala, nammis í skóinn, gosdrykkja, konfekts og kökuáts er runninn upp þarf kannski aðeins að passa upp á tennurnar í börnunum. Við fáum holl ráð hjá Láru Hólm Heimisdóttur tannlækni sem er að ljúka framhaldsnámi í Bandaríkjunum.
Árið 1988 fór Tómas Hermannsson ungur Akureyringur suður til Reykjavíkur á sitt fyrsta alþjóðlega skákmót og gisti hjá ömmu sinni á Hringbrautinni. Frí í skólanum í tvær vikur og ekkert nema skák næstu daga. Hann gerði sér lítið fyrir og sigraði hina ungu Judith Polgar sem var þá á keppnisferðalagi um heiminn með fjölskyldu sinni og tveimur systrum en seinna varð Judith einn besti skákmaður sögurnnar.
8. des
Flutt 08.12.2020
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur kynnt breyttar sóttvarnaraðgerðir sem eiga að gilda frá miðnætti á morgun og fram yfir áramót. Meðal þess sem breytist er fjöldi gesta á veitingastöðum, opnun sundlauga með takmörkunum, fjöldi gesta við útfarir, leikhús mega sýna með 30 manns á sviði og 50 í sal og íþróttaæfingar fullorðinna í efstu deildum eru leyfðar - þó ekki bardagaíþróttir. Líkamsræktarstöðvar verða áfram lokaðar. Allar verslanir mega taka á móti 5 manns á hverja 10 m² en að hámarki 100 manns. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir verður á línunni.
Við heyrum af uppskriftarbók sem ber heitið Uppskriftabók Lillu frænku. Þar fer Edda Björgvins og Viðar sonur Lillu yfir uppskriftarbækur Lillu sem bjó í Ameríku en var vön að elda upp úr gömu handskrifuðu húsmæðraskólabókinni sinni þrátt fyrir áratuga búsetu vestanhafs.
Við ætlum líka að forvitnast um hvað er að gerast á Alþingi. Dagskrá Alþingis hefur tekið breytingum í dag og ekki alveg ljóst hvernig málum verður fram haldið. Það þarf að afgreiða fjárlög með miklum breytingum og ýmis mál tengd faraldrinum. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fréttamaður er á Alþingi.
Guðjón Óskarsson hefur undanfarna mánuði vakið mikla athygli og aðdáun samborgara sinna fyrir hreinsunarstarf sitt - en hann skar upp herör gegn tyggjóklessum í höfuðborginni. Síðdegisútvarpið rakst á Guðjón við tröppur Útvarpshússins þar sem hann hafði í dag hreinsað meira en 200 klessur.
Dagurinn í dag markar ákveðin tímamót í baráttunni við kórónuveiruna. Í morgun var nefnilega fyrsta bólusetningin gegn covid 19 í Bretlandi þegar hin níræða Margaret Keenan fékk sprautuna. Hún sagði í samtali við BBC að það væru forréttindi að fá fyrstu sprautuna. Hún verður 91 árs í næstu viku og sagði þetta vera bestu afmælisgjöf sem hún gæti hugsað sér. Það er langt og flókið ferli framundan því það þarf að bólusetja tugi milljóna manna. Við ætlum ræða þetta mikla átak við Sturlu Sigurjónsson, sendiherra Íslands í Bretlandi.
En við byrjum í Bláfjöllum - Einar Bjarnason rekstarstjóri í Bláfjöllum setti inn færslu á FB síðu hópsins Skíðaæfingar á Reykjavíkursvæðinu í gær. Færslunni hefur síðan verið deilt þaðan yfir í hópa skíðagöngufólks. Þar tjáir Einars ig um námskeiðahald á gönguskíðasvæðinu sem sé í gangi og þetta sé alvjört virðingarleysi við starfsfólk skíðasvæðisins og þær reglur sem eru í gangi. Við heyrum í Einari hér rétt á eftir
7. desember
Flutt 07.12.2020
Sóttvarnareglur hafa verið hertar í Danmörku. Börn í 5. til 9. bekk verða í fjarnámi sem og allir framhaldsskólanemendur. Kvikmyndahúsum og líkamsræktarstöðvum verður lokað og veitingastöðum aðeins leyft að vera með heimsendan mat.
Rúmlega tvö þúsund smit greindust síðasta sólarhringinn í Danmörku og þeim fjölgar sífellt sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús. Landlæknir Dana segir ástandið mjög alvarlegt. Við ætlum að hringja til Danmerkur og heyra í Helgu Hauksdóttur sendiherra Íslands í Danmörku.
Þorpið vistfélag hefur fengið samþykkt kauptilboð í brunarústirnar á Bræðraborgarstíg 1 ásamt aðliggjandi húsi, Bræðraborgarstíg 3. Þar ætlar félagið í samstarfi við félagið Femínistar 60+ að byggja svokallað „Baba Yaga“ hús. Stefnt er að því að endurbyggja Bræðraborgarstíg 3 en reisa nýtt hús við Bræðraborgarstíg 1. Unnur Ágústsdóttir veit meira um Baba yaga húsið.
Fjöldi lántakenda hjá Íbúðalánasjóði kannar nú réttarstöðu sína eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi að sjóðnum hafi verið óheimilt að krefjast þóknunar á uppgreiðslu lána. Fjölskipaður héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu á föstudag að sjóðnum hefði verið óheimilt að krefjast þóknunar fyrir uppgreiðslu. Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna fer yfir málið frá sínum bæjardyrum.
Anna Kristjánsdóttir sem búsett er á Tenerife verður á línunni og segir okkur frá jólastemningunni og skreytingum sem upp eru komnar í hennar nágrenni sem eflaust eru eitthvað frábrugðnar skreytingum okkar Íslendinga.
Jólalagið Do they know it's Christmas sem Band Aid ofurgrúppan gerði árið 1984 með öllum stærstu poppstjörnum Bretlands hefur náð að safna tugum milljarða í góðgerðasjóð í gegnum árin. Hið sama gildir um lagið We are the world og fleiri. Björn Berg Gunnarsson hjá Íslandsbanka ætlar að segja okkur betur frá því.
Hjólaskautafélagið hefur samið um að fá afnot af húsnæði sem opnar fyrir ótal möguleika. Félagið mun stofna æskulýðsstarf fyrir krakka á öllum aldri og opna hjólaskautahöll fyrir almenning þar sem meðal annars verður hægt að fara í hjólaskauta diskó. Lena Margrét Aradóttir veit meira um málið.
4. des
Flutt 04.12.2020
Samtök iðnaðarins og Íslandsstofa standa nú fyrir einskonar átaki eða verkefni um að fá fleiri erlenda sérfræðinga til landsins í hátæknistörf. Og það er mikilvægt sérstaklega þegar horft er til nýsköpunar til að rífa atvinnulífið og efnahaginn upp úr öldudalnum sem faraldurinn kallaði yfir samfélagið. Sigríður Mogensen sviðsstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins ætlar að segja okku betur frá þessu.
Fjórþætt litakóðunarkerfi vegna takmarkana á samkomum vegna COVID-19 hefur nú verið tekið í notkun samkvæmt tilkynningu frá stjórnarráði Íslands.
Almannavarnardeilda ríkislögreglustjóra og Embætti landlæknis lagði til að COVID-19 viðvörunarkerfi sem byggir á litum líkt og veðurviðvörunarkerfi Veðurstofu Íslands yrði tekið upp og sú er nú orðin raunin. Við heyrum í Rögnvaldi Ólafssyni aðstoðaryfirlögregluþjóni sem útskýrir kerfið betur fyrir okkur.
Við ætlum líka að forvitnast um kínverska tunglfarið sem er lagt af stað frá Stormahafinu á tunglinu. Geimhylkið ber mánasteina og efni af yfirborði tunglsins. Í upptöku sem kínverska ríkissjónvarpið sýndi mátti sjá eldglæringar aftan úr hylkinu áður en það þaut af stað. Áður hafði sjálfvirkt farið komið kínverska fánanum upp á mánanum. Ari Kristinn Jónsson rektor háskólans í Reykjavík og fyrrverandi sérfræðingur hjá NASA segir okkur meira.
Við kíkjum í heimsókn í Mengi við Óðinsgötu á markað þar sem boðið verður upp á handverk sem er afrakstur samstarfs íslenskra hönnuða og handverksfólks í Sierra Leone. Verkefnið er hluti af starfi Aurora velgjörðasjóðs í landinu. Regína Bjarnadóttir er framkvæmdastjóri sjóðsins - við spjöllum við hana.
En við byrjum á að heyra í Pawel Ermolinski körfuboltamanni, sem birti færslu á Twitter, í gríni, sem vakti töluvert önnur viðbrögð en hann gerði ráð fyrir.
3.des
Flutt 03.12.2020
Vísindatímaritið British Medical Journal birti í gær grein um rannsókn Elíasar Eyþórssonar læknis og samstarfsmanna á Landspítala sem lýsir tíðni og þróun einkenna meðal fólks sem greindist með Covid-19 í fyrstu bylgju sjúkdómsins á Íslandi. Elías ætlar að segja okkur betur frá niðurstöðunum á eftir ásamt Runólfi Pálssyni prófessor við læknadeild Háskólans.
Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna voru kynntar í gær og ein þeirra bóka sem tilnefnd var í flokki skáldverka var bókin Snerting eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Ólafur kíkir til okkar í þáttinn í dag.
Tónlistarmaðurinn Jón Jónsson lætur hvorki COVID né skítakulda halda sér frá tónleikahaldi. Í kvöld ætlar Jón að halda nokkuð sérstaka tónleika sem eru haldnir í bílastæðahúsini í Hörpu klukkan átta í kvöld og allir áhorfendur eru í sínum bílum með miðstöðvarnar í botni.
Gul viðvörun er í gildi fyrir allt landið í dag nema á Suðausturlandi, þar er hún appelsínugul. Ýmist má reikna með norðanstormi, hvassviðri eða hríðarveðri á landinu í dag og á morgun og allt að 12 stiga frosti. Vilborg Ölversdóttir íbúi á Eskifirði segir okkur sannleikann um veðurofsann fyrir austan.
En við byrjum fyrir norðan Júlíus Júlíusson á Dalvík segir okkur stöðuna á veðrinu þar
2. desember
Flutt 02.12.2020
Það er kalt og hvasst á öllu landinu og veðurspáin ekki beint til að hrópa húrra fyrir. Veðurviðvaranir um allt land, stormur og frost. Núna síðdegis dettur inn appelsínugul viðvörun á suðausturlandi og vissara að vera ekki á ferðinni þar í dag eða á morgun vegna þess að þar er spáð mjög hvössu fram á föstudag. Við ætlum að heyra hvað Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg hefur að segja okkur þegar útlitið er svona.
Bretland var í dag fyrst ríkja til að samþykkja bóluefni frá Pfizer/Biontech við kórónuveirunni fyrir almenna notkun. Ef allt gengur upp þá byrja bólusetningar í Bretlandi í næstu viku. En hvers vegna geta Bretar skorið sig svona úr í alþjóðasamstarfi og hvaða þýðingu hefur þetta fyrir okkur hér á landi? Rúna Hauksdóttir Hvannberg forstjóri Lyfjastofnunar svarar því.
Yfirvöld í Singapore hafa veitt banadaríska matvælatæknifyrirtækinu Eat Just, leyfi til að selja kjúklingakjöt sem er ræktað á tilraunastofu úr frumum dýra. Ef slík framleiðsla kemst á almennilegt skrið, gæti hún gerbylt matvælaframleiðslu. Komið í veg fyrir illa meðferð á dýrum, haft jákvæð áhrif á umhverfið og svo framvegis. En sennilega er þetta nú ekki alveg svona einfalt. Björn Örvar Vísindastjóri ORF Líftækni, þekkir þessi mál út og inn. Hann sest hjá okkur á eftir.
Undanfarin ár hefur Menntaskólinn í Hamarahlíð fylgst með upplifun og líðan nemenda skólans með því að leggja reglulega fyrir kannanir og bera niðurstöður þeirra saman við svör annarra skóla. í haust hafa verið lagðar fyrir tvær kannnir annars vegar innanskólakönnun og hinsvegar Framhaldsskólapúlsinn sem lagður er fyrir árlega. Niðurstöðurnar komu nokkuð á óvart. Við ræðum við Bóas Valdórsson sálfræðing í MH.
Sigga Beinteins undibýr nú jólatónleikana sína sem aldrei fyrr. En þeir verða í streymi næsta föstudag. Sigga verður á línunni.
En við byrjum á kuldakastinu sem er í kortunum. Veitur hafa virkjað viðbragðsáætlun í rekstri hitaveitunnar vegna þess sem er sagt eitt mesta kuldakast í 7 ár. og hvetja fólk til þess að fara sparlega með heita vatnið. Guðmundur Óli Gunnarsson starfandi forstöðumaður hitaveitunnar hjá Veitum.
1.des
Flutt 01.12.2020
Vinnumálastofnun fékk mörg og flókin verkefni í fangið síðasta vor þegar atvinnulausum fór að fjölga hratt vegna kórónuveirufaraldursins. Reglur voru settar um hlutabætur og minnkað starfshlutfall sem þurfti að greiða úr og þúsundir leituðu til Vinnumálastofnunar eftir atvinnumissi. Lög voru sett um laun í sóttkví, sem Vinnumálastofnun sér um að framkvæma. Á sama tíma aðstoðar Vinnumálastofnun fólk í atvinnuleit og og við að halda virkni með námskeiðahaldi og starfsþjálfun. Þannig að verkefnin eru næg. Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar verður gestur okkar á eftir.
Það hafa verið vendingar innan Siumut, stærsta stjórnmálaflokks Grænlands undanfarið. Nýr formaður var kosinn - en fráfarandi formaður, Kim Kielsen, er formaður Landsstjórnar Grænlands og óvíst hvenær hann víkur úr því embætti. Inga Dóra Guðmundsdóttir í Nuuk var á sama fundi kjörin annar varaformanna flokksins. Við ætlum að hringja til Grænlands.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur áveðið að framlengja reglugerð um samkomutakmarkanir og sóttvarnir um viku - til 9. desember. Við heyrum í henni á eftir, um þessa ákvörðun og hvernig hún sér framhaldið.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra um niðurstöðu MDE
RÚV - Efstaleiti 1, 103 Reykjavík - Sími: 515 3000 Fax: 515 3010 - © RÚV 2021